Buxum slátrað og skellt á skeið

Verkefni dagsins voru að minnka svínastíubraginn á heimilinu og slátra gömlum gallabuxum.

Rannsókn á Wayne's World hafði leitt í ljós að þeir félagar voru alla myndina í slitnum gallabuxum rifnum í sundur á hnjánum. Allar mínar gallabuxur láta lífið á sama hátt, þær trosna í sundur neðan við rassvasana. Líklega af því að ég sit svo mikið á rasskatinu. Ekki er það af því að ég hafi sérlega oddhvassan rass, ég held þvert á móti að ég hafi alveg prýðilegan rass. En hann er víst ekki til umræðu hér - þótt prýðilegur sé.

Ég greip því gamlar buxur, stein og slípitönn sem sett er framan á borvél (og ég hafði keypt til að ryðhreinsa gamla Dæhatsúinn). Gekk rösklega til verks og sleit á þær mjög sannfærandi göt við hnén. Síðan prófaði ég að skella mér í buxurnar og sjá hvernig mér líkaði. Ég hefði víst átt að byrja á því að máta buxurnar, þar sem það kom í ljós að prýðilegi rassinn minn hefur orðið örlítið umsvifameiri en þegar buxurnar voru síðast notaðar og reyndust þær því of þröngar fyrir eðlilegt blóðflæði neðan mittis.

Sem betur fer hef ég erft það frá móður minni að henda helst aldrei neinu (nema matarafgöngum) og gat því dregið fram aðrar rasslitnar buxur sem reyndust mun þægilegri og hlutu því hnjáslátrunarörlögin.

Gallabuxur rifnar niður

Að öðru leyti var ég rækilega upptekinn við það í allan dag að gera ekki neitt og varð því minna úr verki en til stóð. Búningurinn er hins vegar tilbúinn og Sæberg ætlar að koma með mér á grímuball og taka að sér hlutverk bílstjórans, a.m.k. eitthvað fram eftir kvöldi.

Ekki verður fleiri buxum slátrað í dag. Sjáumst á balli...


< Fyrri færsla:
Þrotlausar rannsóknir
Næsta færsla: >
Háls, höfuð og skrokkur í lagi, hár úfið
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry