Þramm, djamm og dugnaður
16. nóvember 2003 | 0 aths.
Það fyrsta markverða sem gerðist í gær (laugardag) fyrir utan fyrstu myndir af frænkunni (einnig þekkt sem krílið) var að ég þvoði bílinn í fyrsta skipti í nokkra mánuði. Reyndar var hitastigið helst til nálægt frostmarki þannig að þvottaplanið var frosið að hluta og vatnið á þakinu varð krapakennt meðan á þvotti stóð.
Síðan lá leið niður á Laugaveginn í gjafainnkaup mikil. Um kvöldið átti ég boð í tvö þrítugsafmæli og eitt innflutningspartý. Það er svona félagslífið mitt, ýmist í ökkla eða eyra (eða ökla eins og móðir mín skrifar það). Þriðja þrítugsafmælið er svo aðra helgi í Köben - að ógleymdri litlu frænku. Rúnturinn varð: Skífan, Mál og menning, Japis, Mál og menning og ég komst að því að ég er orðinn svo gamall að ég var ekki alveg viss hvar á Laugaveginum Liverpool væri. Kom að luktum dyrum þegar ég loks fann þá merku búð sem var þungamiðja í borgarleiðöngrum bernskunnar. Þess í stað er sængurgjöfin meira miðuð við foreldrana, enda geri ég ráð fyrir að þroskaleikföng og tískuflíkur í stærðinni XXX...S muni berast í stríðum straumum suður í Fjörð næstu daga og vikur.
Á leiðinni heim renndi ég svo við í Nóatúni og afrekaði að læsa lyklana inni í bílnum. Aftur. Rétt rúmri viku eftir að það gerðist síðast.
Núna var ég reyndar án innkaupapoka þegar ég uppgötvaði lyklaleysið, en heldur verr klæddur. Þrammaði því um nágrenni heimilis míns í leit að tímabundnu húsaskjóli meðan ég beitti gemsanum til að finna varalykla. Lyklarnir svöruðu ekki, en ég náði sambandi við Þórarinn Alvar frændi minn sem var í verslunarferð í miðbænum og lofaði að bjargaði mér og ég laumaðist inn til nýja nágrannans Jóa á meðan ég beið eftir nafna. Þar með varð ég örugglega fyrsti gesturinn í innflutningspartíið hans!
Eftir að hafa komist heim í íbúð byrjaði ég á því að hita mér kakó til að koma smá yl í kroppinn áður en ég dúðaði mig til að rölta aftur í Nóatún. Bauð Albert í mat og græjaði grillkjúkling enda þóttist ég vita að mér veitti ekki af góðri undirstöðu fyrir kvöldið og nóttina. Einhverju sem "stæði með mér" eins og karl faðir myndi orða það.
Örn var fyrstur á dagskrá og þangað brunaði sérlegur einkabílstjóri með mig. Þegar sætisbök og borð voru komin í upprétta stöðu og við að hefja aðflug áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt gjafapokanum heima. Auli. Það var því tekinn hammari á Miklubrautinni og eknir nokkur hundruð metrar á móti umferð þar til við komum að gatnamótum þar sem við gátum snarað okkur aftur yfir í rétta aksturslínu. Hjá Erni var föngulegur hópur tölvunörda og kvenna þeirra, auk prýðilegs sangria sem borið var fram af natni húsbónda, að ógleymdu krásaborði sem kjúklingurinn leyfði því miður ekki að notið væri af miklu dugnaði sökum fyrirferðar sinnar (kjúklingsins).
Litla systir afmælisbarnsins dró síðan fram myndbandsupptöku af honum syngjandi í einhvers konar söngvakeppni í grunnskóla. Ekki man ég hvaða lag hann söng, en það var eitthvað nettþunglyndislegt eins og öll lögin sem hann söng í karíókí í menntaskóla. Húsbóndinn toppaði það síðan með því að draga fram myndbandsupptöku af tónleikum ÞRUMU á Viðarstauk '93 þar sem undirritaður þótti sýna glæst tilþrif sem gógógæ.
Þaðan var leigubílað á Laugaveginn í afmælisveislu Signýjar. Þar þekkti ég ekki marga en þó hnefafylli eða svo. Afmælið hélt hún með vinkonu sinni á nokkuð snytrilegri snyrtistofu. Á staðnum var dansgólf (umkringt hægindastólum og sófum, líklega fyrir áhorfendur) og einhvernvegin skiptist (ó)reglulega um lög án þess að ég fengi séð að neinn stæði við græjurnar. Þegar ég spurði hver væri dídjei var mér bent á mann sem sat ábúðarfullur og potaði með prjóni í PalmPilot (eða eitthvað náskylt). Ég sem hélt að ég hefði verið í nett tölvunördísku partíi hjá Erni þar sem tónlist var öll spiluð af MP3 og gestir voru á myndaspjalli við London þaðan sem afmælisbarninu barst lag. En nei. Það var sko amatöranördismi miðað við þetta. Þarna var sem sé klassískur gettóblaster, vandlega tjóðraður við borð, við hann var tengd tölva og þráðlaus WiFi hub og playlistanum var stjórnað af tveimur, segi og skrifa tveimur (2), þráðlausum lófatölvum. Þannig að allt kvöldið sátu ábúðarfullir (karl)menn að spá og spökulera í playlistum og lagaröð og reyna að þóknast (kven)mönnunum á dansgólfinu sem höfðu miklar skoðanir á því hvað skyldi spilast. Að sjálfsögðu varð svo úr þessu óttaleg kaós þegar báðir reyndu ná fram vilja sínum (tónlistarlega séð).
Þegar gestum tók að fækka var stefnt í bæinn og eftir að hafa kvatt foreldra afmælisbarnsins og stórusystur vorum við fimm í leit að lífi, fjöri og hamingju.
Hér verður einungis farið mjög hratt yfir sögu í barhoppi og biðraðaangist, en þó er rétt að koma að vangaveltum höfundar um ákveðna tegund nísku sem vill færast yfir á svona kvöldum. Eftir Hverfisbarinn var stefna tekin á dansiðkun og skyldi hún iðkuð á 22. Þegar þangað var komið kom í ljós að þar kostaði eitthvað inn og þar með gekk það ekki upp - nú reyndi ekki á það hver aðgangseyririnn væri nákvæmlega, en mig grunar að hann hafi jafngilt einum bjór eða svo. Þess í stað þvældumst við um allt í leit að stað þar sem væri gaman en samt engin röð... Herramaðurinn ég lét það ógert að benda á þetta heldur fylgdi dömunum af staðfestu og hugprýði. (Hefur enda sjálfur gert sekur um þess slags huxanahátt).
Fyrir utan Sólon varð næsti atburður sem í frásögur telst færandi. Þar var sérkennilega löguð íslensk röð sem minnti meira á fjórðung úr hring heldur en biðröð að siðuðum hætti. Allt sat stopp og dyraverðirnir báðu alla að bíða og litu reglulega áhyggjufullir um öxl inn á staðinn. Pískrið í röðinni/þvögunni sagði að eitthvað vesen væri inni á staðnum og þeir væru að fara að henda einhverjum út. Fljótlega eftir það birtist sjúkrabíll með fullum ljósum, en hann hélt áfram og staðnæmdist á móts við Nellýs í einhverju öðrum erindagjörðum. Drykklangri stund síðar komu tveir dyraverðir út og báðu viðstadda að passa sig. Það hljómaði eins og út ætti að hleypa mannýgu nauti eða ámóta forynju. Það lá því við að því fylgdi antíklæmax þegar dyraverðir drösluðu út manni á þrítugsaldri og hópur af drengjum á svipuðu reki fylgdi í humátt á eftir. Þegar þeim fyrsta hafði verið druslað út fyrir girðinguna sem halda átti röðinni/múgnum/kvartboganum í skefjum sneri hann sér við og virtist ætla að útskýra eitthvað þegar einn drengjanna sem á eftir fylgdi gaf honum duglega á kjaftinn án nokkurra málalenginga eða fyrirvara. Hljóðið þegar maður fær á kjaftinn í alvörunni er ekkert líkt kálhausahljóði bíómyndanna - raunveruleikinn hljómar mun verr.
Og þar með varð allt vitlaust. Skyndilega logaði allt í höggum, spörkum, sprettum, hælkrókum, öskrum og byltum. Gangstéttin framan við staðinn og drjúgur kafli af götunni varð leikvangur ofsafenginna testósteróntilþrifa. Líklega hafa þeir verið um 10 strákar sem ýmist reyndu að stilla til friðar eða kýla og virtust reyndar skipta ört um hlutverk. M.a.s. lét ein daman ekki sitt eftir liggja og sparkaði inn í þvöguna þegar einhver lá í götunni og hinir ofan á. Eina vísbendingin um orsök óskapanna var að sá sem ófriðlegast lét tautaði/hvæsi/öskraði í sífellu "Hann var með flösku í hendinni, helvítið var með flösku...".
Þetta tók reyndar hratt af og ég held að enginn hafi borið alvarlegan skaða af, þótt ég geri ráð fyrir að marblettir, skrámur og lausar tennur verði fylgifiskar. Dömunum í minni fylgd virtist brugðið og ákváðu að leita ekki inngöngu á Sólon að þessu sinni. Næst var því stefnan tekin á hinn eðla stað Nellýs. Þar var margt barnungs fólks og ein fullorðin hjón. Ekki virtist tónlistarvalinu ætlað að höfða til nýþrítugra afmælisbarna heldur hef ég grun um að einfaldlega hafi verið opnað fyrir útsendingu af PoppTíví og gömlum klúbbaklisjum skellt yfir auglýsingarnar.
Ekki bar margt til tíðinda á þeim stað utan þess er undirritaður fann sig knúinn til að kasta af sér vatni. Gekk sú athöfn greiðlega fyrir sig eftir að til þess bær staður var fundinn, en þeim mun eftirtektarverðara var símtal sem ungur piltur sem þar var samtíða mér átti.
Var það einhvern vegin á þessa lund: "...hvar ert þú? Ég er að fara að negla ekkert smá flotta píu. Ég er að segja þér það. Ég er svo að fara að negla hana. Smá flotta pían maður. Ég er í ýkt feitum málum. Ógeðslega flott pía. Ég ætla ekkert smá að negla hana..." Mér varð hugsað til þess þar sem ég hristi vatnið af höndunum (því handþurrkuútdeilingarmaskínan virtist hafa tæmst fyrr um kvöldið en einhver örvæntingarfullur rifið hana í sundur í leit að síðustu þurrkunni og maraði helmingur hennar í hálfu kafi í migildinu) hvaða augum snót sú er hann var að bera víurnar í skyldi líta yfirvofandi mökunartilburði. Var hún líka bara í leit að kjöti eða hélt hún kannski að þarna væri hún búin að finna þann eina rétta? Sé það síðarnefnda rétt er ég hræddur um að hún hafi ekki vaknað ánægð í morgun...
Reyndar notaði drengurinn ekki orðið "pía" heldur "píka" og hann sagði ekki "negla" heldur "ríða", en mér finnst einhvern vegin ekki viðeigandi að nota svoleiðs orð á vefsíðunni minni. Það er bara fyrir neðan mína virðingu.
Dansmennt okkar gamalmennanna lauk svo skömmu síðar og ég var komin heim rétt fyrir klukkan fimm. Skellti í mig banana, verkjatöflu og appelsínusafa áður en ég lagðist til hvílu.
Vaknaði síðan um ellefu leytið, laus við þynnku en heldur vansvefta. Tók svo duglega skorpu í kassaburði við flutninga Más og Stínu og eftir smá snatt lauk deginum á því að skella upp myndum af litlu frænku. Hef verið orkumeiri en ég var í flutningunum og um kvöldið var ég með sífellda hungurtilfinningu þrátt fyrir kjötát, súkkulaðiís og nammi...
Fleira bar ekki markvert til tíðinda þessa helgi.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry