Sjálfstortúr og tannlæknaheimsókn

Ég hef verið óttalegur zombí undanfarna daga, ekki druslast á fætur á morgnana nema með harmkvælum og verið hálfsofandi í vinnunni langt fram eftir degi. Hluti af vandanum felst örugglega í birtuleysinu, ekki skammdegisþunglyndi heldur er ég viss um að í erfðamenginu mínu búa einhver dvalagen. Um þetta leyti árs (og sérstaklega kringum jólin) grípur mig iðulega löngun til að halda mig bara undir sænginni ... alltaf.

Stærri þáttur í uppvakningastemmningunni held ég þó að sé hreyfingarleysi. Ég hef varla hreyft mig eftir 10 kílómetrana í Reykjavíkurmaraþoninu og vöðvarnir eru farnir að kvarta yfir hreyfingarleysi (milli þess sem þeir neita að fara fram úr rúminu). Ég er búinn að vera á leiðinni út undanfarna daga og í gær notaði ég loks tækifærið fyrst veðrið var þokkalegt og skokkaði minn 5 km hring. Ekki voru sett nein hraðamet að þessu sinni, enda ekki stefnt að því heldur frekar að þrauka. Það hafðist, en síðustu 2 kílómetrana eða svo voru hné og nærsveitir farin að kvarta yfir súrefnisleysi og hóta verkfallsaðgerðum. Að lokum komst ég heim og eftir sturtu og kvöldverð brunaði ég í Kópavog til að hitta leshringinn í jólagjafainnkaupum á heildsöluprís. Ég reyndist svo sjálfhverfur að flest það sem ég keypti var fyrir sjálfan mig, en þó fylgdu eins og tvær gjafir með í kaupbæti.

Í dag þarf ég hins vegar að taka afleiðingunum af þessu sprikli, hökti um eins og gamalmenni með helauma lærvöðva og lúin hné. Mínir strengir eru samt alltaf verstir á öðrum degi, þannig að ég er að velta því fyrir mér að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og reyna að útvega mér hjólastól fyrir morgundaginn.

Rétt fyrir hádegið skakklappaðist ég upp á Skólavörðustíg og lagðist flatur undir tannlæknatólin. Ég er ekki haldinn tannlæknafælni, en neita því ekki að ég var með nettan fiðring í maganum á leiðinni til hans. Í og með stafaði það af því að reynslan hefur kennt mér að hafi ég áhyggjur af einhverjum nýtilkomnum tanneymslum reynast þau sauðmeinlaus, en ef ég hins vegar leyfi mér bjartsýni og held að allt sé í lagi þarf undantekningarlaust að bora. Í dag vissi ég ekki til þess að neitt væri að.

Og auðvitað þurfti að bora. Mér var boðin deyfing og þáði - enda lítill sársaukafíkill. Ekki þótti mér deyfingin vera að standa sig sem skyldi þegar borinn var kominn hálfa leið upp í heila. Verst hvað þessum stórvirku aðgerðum fylgdi heiftarlegt tannkul - hefði deyfing ekki átt að fela það?

Fram eftir degi naut ég þess að vorkenna sjálfum mér meðan deyfingin var smám saman að mjatlast úr mér. Slapp þó við Rocky syndrómið þar sem helmingurinn af andlitinu lætur ekki að stjórn og munnvatnsframleiðsla fer úr skorðum. Björtu hliðarnar eru þó að tannlæknirinn hefur lofað að bora ekki meira í mig fyrr en í haust.

Fleiri hryllingssögur verða ekki sagðar í dag.


< Fyrri færsla:
Lénsyfirráð og meðmæli
Næsta færsla: >
Hundarotta undir stýri
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry