Hitt og þetta (og sitthvað að auki)

Stutt yfirlit yfir atburði undanfarinna daga:

Brallið sem ég ýjaði að í síðustu færslunni fyrir jól var að ég fór á samlestra á nýju íslensku leikriti hjá leikfélaginu Hugleik. Missti af fyrsta lestrinum en kom á annan og las þá hlutverk vitgranns íslensks leyniþjónustumanns (hálft leikritið eða svo). Laugardaginn sem ég kom aftur var svo þriðji lestur og í framhaldi af því skipað í stærstu hlutverkin.

Ég er ekki viss um að ég hafi tíma til að skella mér í verkefnið af fullum krafti, enda verður æfingatíminn stuttur og krefjandi. Hins vegar er ég áhugasamur um að kynnast félagsskapnum Hugleik og vonandi get ég orðið að einhverju liði, t.d. er ekki útilokað að ég endi í einhverju litlu aukahlutverki og/eða aðstoði við annan undirbúning. Auðvitað kitlar sú spurning egóið hvort ég hefði fengið stórt hlutverk hefði ég gefið kost á mér í það, en ég held samt að henni sé best ósvarað :)

Svo hef ég reynt að hitta eitthvað af vinum og kunningjum þegar færi gefst, auk þess sem það er freistandi að nördast í nýju vefhýsingunni. Ég er kominn í hýsingu hjá fyrirtæki sem heitir LunarPages og þar er ég með töluvert fullkomið stjórnborð þannig að ég get búið til óendanlegan fjölda @thorarinn.com netfanga, búið til undirlén (xxx.thorarinn.com), rýnt í upplýsingar um gesti og umferð, auk fjölmargra fleiri möguleika sem ég á eftir að prófa mig áfram með. Verðið fyrir herlegheitin? Tæpir 8$ á mánuði sem mér þykir ekki sérlega dýrt. Forritun og uppsetning á dagbókarvirkni er alveg að fara að hefjast og þá losna mínir fjölmörgu lesendur við að skrolla endalaust á þessari gríðarlöngu forsíðu.

Litla systir er flutt í bæinn og ég hef aðeins verið að liðsinna henni, sækja á flugvöllinn, skjótast með henni í IKEA og heimsækja Vilborgu litlu.

Merkilegt hvernig minni manns virkar. Við systkinin vorum á ferð í hálku um daginn þegar ég lýsti því yfir að hún þyrfti engar áhyggjur að hafa, ég væri með glænýja bremsuklossa. Um leið og ég heyrði sjálfan mig segja þetta fannst mér eitthvað dularfullt við fullyrðinguna enda mundi ég ekki eftir að hafa látið skipta um þá. Svo rifjaðist upp fyrir mér að fyrir jólafríið var mér bent á að klossarnir væru alveg að verða búnir og ég yrði að drífa í að láta skipta um þá, ég komst hins vegar ekki í það áður en ég fór austur og hafði sannast sagna steingleymt þessu þar til ég kom með þessa kolröngu fullyrðingu. Reyni að græja þetta núna í vikunni.

Í morgun skrapp ég í Smáralind að kíkja á útsölur. Margt þar sem ég gæti alveg hugsað mér að eiga, en ég lét mér nægja að kaupa tvær skyrtur og stuttermabol í Zöru. Þegar ég skellti síðan skyrtunum inn í fataskáp áttaði ég mig á því að á rétt rúmlega hálfu ári er ég búinn að kaupa 7 skyrtur í Zöru! (Ein þeirra er reyndar stuttermaskyrta, en ég held það sé aukaatriði í þessu samhengi). Af hverju þessi skyrtufíkn? Líklega bara breyttur fatasmekkur, áður keypti ég skyrtur aðallega til sparinotkunar og mætti yfirleitt í peysu í vinnuna. Upp á síðkastið er ég meira farinn að vera í skyrtum í vinnunni og sannast sagna var komin þörf fyrir að endurnýja skyrtusafnið. Í ljósi þessarar uppgötvunar held ég þó að keyptum skyrtum muni heldur fækka á árinu 2004.

Um kaffileytið fór ég svo með Margréti systur í 85 ára afmæli ömmu (í nýrri skyrtu), þar sem næstum öll föðurfjölskylda mín hittist. Gaman að sjá alla, enda komst ég ekki í nein af jólaboðum fjölskyldunnar að þessu sinni. Ég "svindlaði" aðeins og tók með mér afmælisgjöf til annars afmælisbarns; Ella bróður sem átti afmæli á gamlársdag en hafði ekki fengið neina gjöf frá mér. Við litum við hjá familíunni í Hafnarfirðinum eftir afmæliskaffi ömmu og þar tók Elli upp gjöfina, Vilborg var í litlu gestastuði og kvartaði að sögn foreldranna yfir magaverkjum. Eftir millilendingu hjá Margréti í lasagna kom ég heim og hef verið að dunda við sitthvað smálegt (og horfa aðeins of mikið á sjónvarp).

Það eina sem ég hef upp á nýhafið ár að kvarta er að sjónvarpsgláp mitt virðist ekki ætla að minnka af sjálfu sér. Líklega verð ég að fara að taka mig á ef ég á að ná að ljúka sómasamlegri jólahreingerningu á íbúðinni fyrir næstu jól :)

Ekki verður meira glápt á imbann í kvöld.


< Fyrri færsla:
Flutningar standa yfir
Næsta færsla: >
Rússneskur sirkus
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry