Skúrað í snjónum

Í dag var skúrað.

Þá er ég að meina alvöru skúringar; rokk undir geislann, svitabolur, húsgögnum rutt úr vegi, ábreiður viðraðar og þvegnar, stofan endurskipulögð og telitu skolvatni sturtað niður. Það er ekki það oft sem alvöru skúringar eru stundaðar hér á mínu heimili (hins vegar moppað reglulega) og því er full ástæða til að færa það í annála hér.

Skúringin er hluti af metnaðarfullri áætlun um jólahreingerningu sem bjarsýnustu áætlanir gera ráð fyrir að ljúki um eða eftir páska 2004. Reyndar skal tekið fram að vinnuherbergið var undanskilið í þessu skúrunarátaki enda er enn beðið lokaskýrslu rannsóknarhóps sem falið var að kanna þann orðróm að gólf leyndist undir óreiðunni þar inni. Á grundvelli þeirrar skýrslu mun svo stjórnnefnd hreingerningarátaksins meta með hvaða hætti staðið verður að aðgerðum í því herbergi.

(Já, ég veit ég er búinn að vinna of lengi sem bjúrókrati).

Í öðrum óspurðum fréttum er helst að hrósa Póló litla fyrir frammistöðuna í snjóakstri þessa helgi. Mér leist ekki á blikuna á föstudagskvöldið þegar ég sat hjá systur Mardí yfir Idolinu og horfði á snjónum kyngja niður. Það endaði með því að ég fór af stað áður en endanleg úrslit lágu fyrir til þess að lenda síður í mikilli umferð. Það reyndust líka vera nokkrir skaflar á leiðinni þar sem ég bara krosslagði fingur og vonaði það besta og var mjög feginn að enginn skyldi vera fastur fyrir framan mig (enda skyggni í takmörkuðu upplagi).

En Póló fór þetta allt á lagninni. Hann þurfti reyndar í gær að játa sig sigraðan gagnvart brekkunni upp að Keiluhöllinni, moðsnjór ofan á svelli veitti heldur lítið grip til ónegldu vetrardekkjanna þannig að treyst var á tvo jafnfljóta síðasta spölinn.

Svo er að sjá hvort hann skili mér í fannfergðan Hafnarfjörð í kvöld.

Með hverjum deginum sem líður færist sá dagur nær þegar ég set þetta dagbókarskrifli upp í gagnagrunn og létti síðuna, þangað til þakka ég dyggum lesendum þolinmæðina.


< Fyrri færsla:
Rússneskur sirkus
Næsta færsla: >
Bók djöfulsins
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry