Gúdd ívníng Æsland, þis is Rössja spíking

Rússneski hnífakastarinn leggur hönd á lyklaborð eftir nokkuð hlé. Lítið hefur verið um hlé á leikæfingunum (en verður þó a.m.k. eitt slíkt á hverri sýningu þegar þar að kemur).

Ég hef einsett mér að klikka ekki á einni einustu setningu (eða replikku eins og það heitir á fagmáli) í öllu æfingaferlinu (og sama gildir auðvitað um alvöru sýningar). Það er háleitt markmið með minn teflonheila, en ég hef góða trú á að það gangi eftir enda setningar mínar heldur fáar og stopular... ef nokkrar.

Nú er helgin að baki og ýmislegt brallað. Fyrst ber að nefna bæbæbirna partíið sem Birna frænka hélt að heimili sínu á föstudaginn. Á leið þangað millilenti ég hjá Óskari og Imbu og gerði mitt besta til að spilla uppeldi dóttur þeirra, veit þó ekki hvort mér varð nokkuð ágengt í því, en okkur kom ágætlega saman (a.m.k. þar til hungur tók að herja á þá stuttu). Þá tók ég hatt minn og staf og brunaði til Birnu í frosthörkunum.

Þar sem leikæfing var fyrirhuguð á hádegi laugardags tók ég þá ákvörðun að halda mig við ropvatnið og sníkja síðan far hjá sjálfum mér heim um nóttina. Þetta var nokkuð skemmtileg útfærsla á partíi, sem minnti eiginlega meira á skiptistöð heldur en hefðbundið samsæti. Líklega afleiðing af áberandi návígi við miðbæinn, þar sem gestirnir voru margir á leið annað eða brugðu sér í partí úr öðrum gleðskap í bænum. Hnífakastarinn brá undir sig betri klárnum um tvöleitið og skrölti vestur til heimkynna sinna.

Eitthvað var slórað yfir imbaglápi, vinaspólum og annarri lágkúru áður en skriðið var undir sæng um þrjúleitið. Hugsaði stórleikarinn sér gott til glóðarinnar að vakna átta tímum síðar og bruna næstum beint á æfingu - útsofinn og hress. Glaðvaknaði síðan fyrir klukkan níu, ekkert sérlega hress og reyndi að sofna aftur alveg til klukkan ellefu. Þegar til átti að taka féll æfing niður vegna forfalla, en mannskapurinn þess í stað virkjaður til flutninga á ómældu magni af leikmunum margvíslegum og torkennilegum.

Á laugardagskvöldið var svo ætlunin að fara snemma að sofa, en til að gera langa sögu stutta fór ég heim frá Arnari "notendatilvik" Scheving um þrjúleytið um nóttina. Að þessu sinni svaf ég þar til vekjaraklukkan hringdi og mætti úthvíldur á æfingu á hádegi. Var því eldhress að fylgjast með höfundum verksins bregða upp sveðjum og skera niður samtöl og heilu og hálfu persónurnar. Ekki varð þó nein skerðing á mínum hlut í verkinu.

Seinnipartinn gerði ég svo nokkuð sem ég hef ekki gert síðan ég var 10 eða 12 ára gamall og fór á skauta. Varð það næstum minn bani.

Eigandi enga skauta var stefnan tekin á Skautahöllina í Laugardal þar sem fregnir hermdu að leigja mætti skauta til að bregða á ísinn. Þegar skautar höfðu á fætur spenntir verið var tilkynnt að nú yrði svellið slípað og svæðið rýmt um stundarsakir. Huxaði ég mér gott til glóðarinnar að fá loks að sjá hið goðumkennda fyrirbæri zambóní í axjón og návígi. Sárari en frostköldum tárum taki urðu vonbrigði mín þegar græjan virtist ekki gera annað en að frussa vatni á ísinn og svo var beðið eftir að pollarnir tækju á sig fast form.

Fyrstu "skrefin" gengu þokkalega, enda farið hægt yfir og grindverkið ætíð innan seilingarfæris til halds og traust. Eftir nokkra hringi á hraða snigilsins tók traust á eigin getu að aukast og göngugrindinni var sleppt. Ekki ætla ég neinum þá trúgirni að falla fyrir fullyrðingum um afrek mín í skautaíþróttinni, en ég fullyrði þó að ég varð ekki valdur að neinum árekstrum. (Það stafaði reyndar einkum af því að krakkapíslirnar voru liprar að víkja sér undan þegar lopapeysuklæddur sláninn kom aðvífandi með skelfingarsvip).

Svo, einmitt þegar aftur var farið að örla á sjálfstrausti átti atvikið sér stað.

Skyndilega brast takt í þokkafullum framgangi eftir svellinu og algert jafnvægisleysi breiddist hratt út um skrokkinn. Þarna horfðist ég í augu við dauða minn og helstu hápunktar ævi minnar runnu mér fyrir hugskotssjónum. Það ferli tók reyndar ekki langan tíma (eins og Kaninn myndi segja: You need to get out more often!) og að því loknu sá ég fyrir mér minnstu smáatriði í dauðdaga mínum:

Hvernig hendurnar teygðust út til sitt hvorrar áttar í örvæntingarfullri baráttu við að slíta sig frá dauðadæmdum skrokknum, hvernig skautarnir tókust á loft og brot úr sekúndu var líkaminn þráðbeinn í loftinu áður en aðráttaraflið reif í hnakkadrambið á mér og mölvaði hauskúpuna á svellinu. Ég sá meira að segja fyrir mér hvernig blóð og slettur af síðustu hugsunum mínum myndu smám saman frjósa fastar í rauðbleikum geislabaug um kollinn á mér starandi brostnum augum upp í diskókúluna í loftinu.

Þessi sýn tók alla mína meðvituðu heilastarfsemi í það sekúndubrot sem hún stóð. Það dugði til þess að ósjálfráða taugakerfið varð skyndilega einvaldur yfir útlimum og innyflum og laust úr viðjum meðvitaðra hreyfinga náði það aftur jafnvægi fyrir mína hönd og frestaði ótímabærum yfirvofandi dauðdaga.

Því sem eftir lifði dags verður ekki nánar lýst hér, en segja má að þessi fingurkoss frá dauðanum hafi gefið mér nýja sýn á tilveruna og öll hennar miklu undur.

Svo má líka segja að ég sé óttalegur bullukollur, en það er önnur saga.


< Fyrri færsla:
Bók djöfulsins
Næsta færsla: >
Súngið í skóginum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry