Súngið í skóginum

Hafi ég ekki tekið það fram áður þá er verkið sem Hugleikur er að æfa núna (og ég með) gamanleikur með söngvum. Því fylgir óhjákvæmilega þetta með söngvana og í tilefni þess var haldin söngæfing síðastliðinn laugardag. Þeim lesendum sem þekkja til sönghæfileika minna (eða skorts þar á) til hrellingar uppljóstrast hér með að ég ljái rödd mína í 4 sönglögum!

Áðurnefndum lesendum (og öðrum) til hughreystingar eru þetta allt hópsöngsatriði þar sem ég hef stuðning af mér lag- og tónvissara fólki. Hins vegar opnast með þessum nýtilkomnu söngtextum möguleiki á að ég klikki á texta sem ég hafði einsett mér að gera alls ekki á öllu æfingatímabilinu. Ég verð líklega að leggja mig fram við heimalærdóminn.

Í framhaldi af söngæfingunni var efnt til súpuveislu með tilheyrandi söngvatnsinnbyrðingum og tónlistariðkun þar sem undirritaður gekk fram af sér og öðrum í slagverksbarningi.

Frumsýningardagsetning skilst mér að sé fastsett laugardaginn 28. febrúar í Tjarnarbíói og sýningarplan gerir ráð fyrir sýningum fram yfir miðjan apríl. Það stefnir m.a. í að ég standi á sviði á afmælisdaginn minn, 2. apríl.

Utan æfinga er ekki mikið svigrúm, en helst fer það í innbyrðingu fæðu, lágmarksheimilisstörf og svefn. Að sjálfsögðu hefur mér þó tekist að safna glóðum elds að höfði mér og er kominn í hálfgerða skömm með tvö vefverkefni sem dregist hafa úr hófi. Ein hliðarverkun þeirra vefverkefna verður þó (vonandi) að mér takist lox að koma þessari dagbókarskömm í gagnagrunn (eins og ég hef margoft lofað áður).

Vondu fréttir liðinnar viku eru hins vegar þær að ég er farinn að vakna of snemma á morgnana. Það er fyrirbæri sem er beintengt við streitu, en kemur mér á óvart að skjóti upp kollinum núna því vinnan mallar áfram sinn vanagang án streituvalda og leikæfingarnar eru skemmtilegar. Líklega er þetta einhver spenna sem ekki er komin upp á yfirborðið nema í þessum svefntruflunum.

Það er ekki svo gott að þótt ég vakni á undan vekjaraklukkunni mæti ég fyrr í vinnuna sem því nemur. Þvert á móti. Ef ég er búinn að liggja andvaka í hálftíma þegar klukkan gellur finnst mér eins og ég eigi inni hálftíma og langar ofboðslega að taka hann út í láréttri stöðu undir sæng. Morgunstundvísi mín er því með sama afleita móti og áður - en þökk sé hækkandi sól er ég þó að mestu vaknaður þegar ég loks druslast á staðinn.

Svefnvenjur verða ekki frekar ræddar að sinni.

(Vegna fyrirsagnar þessarar færslu skal tekið fram að ég hef ekki sungið í neinum skógum (nýlega), en þegar ég hafði skrifað súngið með Laxnesskri stafsetningu varð mér hugsað til Únglíngsins í skóginum). (Ég veit, ég á bágt).


< Fyrri færsla:
Gúdd ívníng Æsland, þis is Rössja spíking
Næsta færsla: >
Bráðabirgðalagfæring til léttingar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry