Bréf til þáttarins

Þættinum hefur borist bréf frá dyggum hlustanda lesanda. Í bréfinu bendir bréfritari, sem er að norðan, á að bagalegt sé að ekki skuli vera virkur tengill á netfang undirritaðs hér á þessum vef.

Einnig bendir bréfritari á að undirritaður standi sig illa í stykkinu varðandi kynningar á leikriti því sem æft er, því þótt títtnefnt sé hafi enn ekki komið fram nafn þess.

Þátturinn þakkar bréfið.

Varðandi nafn leikritsins er auðsótt mál að svara því og er vitnað beint í Hugleik sjálfan:

[...] Er hér um að ræða verk eftir Ármann Guðmundsson, Hjördísi Heiðrúnu Hjartardóttur, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Hefur það hlotið nafnið Sirkus - hringleikur, og er leikrit með söngvum.

Sirkus gerist 1949 og fjallar um hingaðkomu rússnesks sirkuss í miðju kalda stríðinu, og viðbrögð íslendinga við því, ekki síst félaga í nýstofnaðri íslenskri leyniþjónustu. Eins og gjarnan í verkum þessa höfundagengis ráðast örlög þjóðarinnar í lok verksins.

Leikstjóri er Viðar Eggertsson.

Um netfangið er það að segja að mér er mjög annt um thorarinn(hjá)thorarinn.com og vil síður að það sligist undan ruslpóstsendingum. En það er staðreynd að ein af þeim uppsprettum sem netfangasafnarar nota eru netföng á vefsíðum, sér í lagi þau sem eru virkir tenglar því þar með er vandlega búið að merkja "þetta er netfang, prófaðu að stela því!" og hefst þá flóðbylgja lyfjakynninga og skeyta frá kornungum, barmmiklum og vergjörnum fraukum sem gjarnan vilja sýna myndir af sér við störf og leik.

Enn sem komið er hefur þetta tekist og pósthólfið er laust við ruslpóst. Í dag var ég reyndar að fá vírus sendan á það, sem bendir til þess að einhver sem þekkir mig sé smitaður (þ.e. tölva viðkomandi).

Ég birti því netfangið aðeins sem mynd hér til hliðar og treysti því að póstsendarar af holdi og blóði víli ekki fyrir sér að slá það inn handvirkt (og geta jafnvel skráð það í tengiliðalista sína í rafpóstsforritum. Hins vegar er mér ljúft að gera því hærra undir höfði með því að færa það yfir á hægri vænginn.

Ekki verður fleiri bréfum svarað að sinni.


< Fyrri færsla:
Bráðabirgðalagfæring til léttingar
Næsta færsla: >
Klámhundar og róbótar tíðir gestir
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry