Klámhundar og róbótar tíðir gestir

Við flutninginn á hýsingunni yfir til lunarpages.com fékk ég aðgang að ítarlegum skráningum og greiningum á umferð. Nú rúmum mánuði síðar er komið marktækt úrtak og verður þessi sjálfhverfa færsla því helguð tölfræði heimsókna á vefinn.

Fyrir um það bil ári síðan setti ég upp ókeypis teljara frá teljara.is og hann fór prýðilega af stað. Ef eitthvað var fékk ég merkilega margar heimsóknir miðað við það hvað uppfærslur voru fátíðar - líklega voru þar á ferð vinir mínir sem trúðu því að ég hlyti að fara að uppfæra efnið.

Svo skyndilega hætti hann að virka og taldi bara ekki neitt. Ég sendi Modernus tölvupóst og spurðist fyrir, en þeir könnuðust ekki við að nein bilun hefði átt sér stað, en síðan hefur í mesta lagi handfylli heimsókna mælst með þeim teljara og ég kem til með að fjarlægja hann af síðunum aftur.

Á lunarpages er hins vegar um að ræða greiningu á tölum frá vefþjóninum sjálfum (server logs á útlensku). Reyndar er ég ekki viss hvort inni í þessum tölum er notkun mín á vefpósti og stjórnborði vefsvæðisins, en hallast þó frekar að því að svo sé.

En á þessum 38 dögum sem mældir hafa verið telst umferð sem hér segir:

  • Gestir (visits) : 956
  • Sóttar síður (pages) : 1735
  • Gagnamagn (MB) : 264 MB

Þetta gerir að meðaltali 25 gesti á dag, sem samtals skoða 46 síður og hala niður 6,9MB. Reyndar stafar gagnamagnið eflaust af því að forsíðan var farin að nálgast 300K þegar ég skar hana upp (niður?). En mér finnst samt áhugavert að samtals eru allar skrár á vefsvæðinu um 11 MB og þessi tölfræði jafngildir því að allur vefurinn hafi verið sóttur í heild sinni um 25 sinnum á 38 dögum!

Róbótar leitarvéla virðast vera um 17% sóttra síðna og ætti innihald vefsins því að vera vel þekkt á þeim bæjum.

Og þá er það áhugaverðari tölfræði tengd leitarvélum, þ.e. klámið!

Yfirlitin sýna nefnilega einnig hvaða leitarorð gestir hafa notað til að finna síðurnar mínar. Þar trónir klámið á toppnum:

  • pron 92 vísanir
  • free pron 11
  • art nudity 1600x1200 10
  • free porno 8

Önnur leitarorð og frasar birtast sjaldnar, en þarna er að finna ótrúlegustu leitarorð, t.d. "klámmyndir", "óeðlileg munnvatnsframleiðsla", "hótel nærri oxford street", "píka ríða", "rússneskur sirkus", "desktop image cut hole", "biurf" og alls konar útgáfur af "pron".

Klámlinkarnir stafa eflaust af "free pron" brandaranum hans Más sem ég tileinka einn af desktoppunum á myndasíðunni. Greinilegt að lesblindir klámhundar eru tíðir gestir, en hvort þeir finna eitthvað við sitt hæfi hér skal ég ekkert segja um.

Og að sjálfsögðu mun þessi færsla hækka mig á lista leitarvélanna næst þegar þær eiga leið hér um.

Nóg komið af tölfræði í dag, góða helgi!


< Fyrri færsla:
Bréf til þáttarins
Næsta færsla: >
Stund millum stríða
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry