Stund millum stríða

Þá er farið að grilla í frumsýningarhelgina (frumsýnt verður 28. febrúar) og við komin í Tjarnarbíó með okkar hafurtask.

Eftir að ég hafði átt frídag á laugardeginum var leikmynd, búningar og kaffivél flutt niður að tjörn á sunnudeginum og tekið eitt rennsli á nýju sviði. Síðan var æft í gærkvöldi frá kl. 19 til ca. 23:40 og hef ég grun um að þannig verði flest kvöld það sem eftir lifir mánaðarins.

Mér fannst ég standa mig afleitlega á sunnudagsæfingunni en náði mér betur á strik í gær og við sirkuspésar erum smám saman að komast úr myndastyttugírnum sem við höfum átt það til að detta í þegar axjónin á sér stað annarsstaðar á sviðinu. Það er hins vegar farið að há mér að vera ekki orðinn öruggur á söngtextunum og ég þarf að gera átak í að læra þá.

Ég ætla líka að reyna að kría út leiðsögn stórsöngvara til að skoða lögin með mér - kemur í ljós hvort það tekst.

Þegar ég kom heim í gær um miðnættið var ég of uppveðraður til að fara að sofa og sofnaði líklega ekki fyrr en rúmlega eitt. Draumfarir hafa verið með líflegra móti undanfarnar nætur og heilu og hálfu kvikmyndirnar með heimskulegum söguþráðum grasserað í heilabúinu. Rassvasasálfræðin mín segir að þetta sé merki um að ýmislegt sé að brjótast um í kollinum á mér - sem er óneitanlega staðreynd.

Meðal annarra afreka ber þess að geta að á sunnudagskvöldið lagðist ég á klósettgólfið vopnaður einnota hönskum, kíttisprautu, eldspýtum og öðrum torkennilegum verkfærum og kíttaði í kringum niðurfallsrörið úr tojlettinu sem ég tók eftir að var farið að dropa úr á óspennandi stað. Ég stend í þeirri trú að sú aðgerð hafi heppnast vel og stefni næst á að munda kíttið á Fálkagötunni og steypa fastan baðherbergisvask sem þar er með einhverja frelsistilburði og bisast við að slíta sig lausan.

Ég er laus við æfingar í kvöld, en mér sýnist að kvöldinu verði varið fyrir framan tölvuskjá við forritunarreddingar og bréfaskriftir. Svo er rennsli annað kvöld og ég bíð spenntur eftir að fá æfingaplan næstu daga.

Vonast til að geta opinberað nýjan stórvef eftir vinnu kvöldins - kemur í ljós...

Ekki verða fleiri hálfkveðnar vísur kveðnar að sinni.


< Fyrri færsla:
Klámhundar og róbótar tíðir gestir
Næsta færsla: >
Dansandi og syngjandi efnafræðingsgrey
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry