Dansandi og syngjandi efnafræðingsgrey

Detta mér nú allar dauðar lýs, sín á hvora öxl...

Ekki nóg með að mér sé ætlað að syngja fjögur lög á títtnefndri leiksýningu, heldur fór æfingin í gærkvöldi að stórum hluta í kóreógrafíu, þ.e. að æfa "danshreyfingar".

Maður veit að maður á ekkert gott í vændum þegar búið er að berja saman rútínu þar sem allir hlaupa þvers og kruss um sviðið veifandi stórum fánum og syngjandi hástöfum, og leikstjórinn stendur framan við sviðið, klórar sér hugsandi í kollinum og segir; "Nei, þetta er ekki alveg nógu flókið svona, prófum að breyta þessu aðeins".

Blessunarlega mun þó ekki reyna mikið á ballethæfileika mína og lipra limabeitingu (sem mér finnst reyndar að ætti að vera skrifað með ufseloni en þetta mun rétt svona), heldur verður meiri áhersla á þramm fram og til baka um sviðið. Þetta verður eflaust mjög flott hjá okkur, en það má lítið útaf bregða svo ekki verði úr þessu ein allsherjar kaós með rússneskum sirkuslistamönnum í óskipulagri þvögu lemjandi hvern annan með stórum fánum. Spennandi.

Nú er komið að því að opna formlega vef sem hefur verið að fæðast undanfarnar vikur og er settur upp í tilefni af því að pabbi gamli og bræður hans ætla að taka þátt í hinni fornfrægu 90 km löngu Vasagöngu í Svíþjóð í byrjun mars.

vasa.thorarinn.com

Eitthvað af virkni á eftir að bætast þarna inn og efnisviðhaldskerfi er ekki tilbúið, en það ætti ekki að trufla þá sem skoða vefinn.

Ég held að með þessari glæstu útlitshönnun sé ég að ná áður óþekktum hæðum á mínum hönnunarferli, ef stíllinn minnir á eitthvað tímarit sem gefið er út hér á landi tek ég skýrt fram að það er algjör tilviljun og í raun atvinnurógur að halda slíku fram.

Hver veit nema ég búi til einn smekklega ósmekklegan banner hér til hliðar, læt samt textalink duga í bili.

Rennsli á leikritinu í kvöld, frumsýningin 28. febrúar nálgast óðfluga, áhugasömum bent á að taka daginn frá...


< Fyrri færsla:
Stund millum stríða
Næsta færsla: >
Takandi tönn og kafinn önnum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry