Takandi tönn og kafinn önnum

Þá fer að nálgast frumsýningu, 3 æfingar til stefnu og svo generalprufa á föstudaginn. Eins og vera ber tekur sýningin stórstígum framförum hjá okkur þessa dagana. Sviðsmyndin er orðin svotil klár og æfingin í gær fór að miklu leyti í að æfa skiptingar á milli atriða. Það er þó enn fjölmargt sem er ógert og hnífakastarinn er til dæmis ekki kominn með hníf, en treystir á að því verði bjargað fyrir frumsýningu.

Dagarnir fara að mestu í vinna-éta-æfa-sofa (endurtakist eftir þörfum). Æfingar standa frá kvöldmatarleyti og fram undir miðnættið. Þegar maður kemur svo heim er maður of uppveðraður til að fara strax að sofa og hengslast yfir sjónvarpinu þar til syfjan fer að sækja á. Svefn er því ekki með allra mesta móti, en maður reynir að taka kríu þegar færi gefst og reyna að sofa sem mest um helgar.

Hér fer á eftir í kaótískri röð það helsta sem á dagana hefur drifið undanfarið.

Ákveðnu "tilraunaverkefni" sem staðið hefur undanfarnar vikur (þegar tími vannst til) hefur verið slitið í góðri sátt milli samstarfsaðila.

Ég er ekki enn búinn að læra helv. rússneska bullsönginn sem sirkusinn kyrjar sem sinn inngöngumars, því þarf snarlega að kippa í liðinn.

Annars fékk ég mjög áhugavert komment á sönghæfileika mína á æfingu um daginn. Við vorum að ganga frá búningum eftir rennsli og ég var að raula einhvern lagstúf sem við syngjum í sýningunni þegar Alla Terhofa, eiginkona hnífakastarans, missti út úr sér "Það er nú ágætt að þú skulir vera laglausasti maðurinn í sýningunni Þórarinn, þá erum við kannski ekki í svo vondum málum". Þar var hún að vísa til þess að á fyrstu söngæfingu tók ég fram að ég væri bæði laglaus og raddlaus en myndi samt gera mitt besta. Ég held því að ég kjósi að líta á þetta komment sem hrós. Síðar á þeirri sömu æfingu benti tónlistarstjóri sýningarinnar mér á að ég væri svolítið "villtur" í lögunum og ætti að prófa að einbeita mér meira að því að hlusta á hina söngvarana - guilty as charged.

Á laugardeginum fór ég eftir æfingu í heimsókn upp í hinar efri byggðir (Breiðholtið) í smá sönggreiningu hjá meistara Sæberg. Niðurstöður þeirrar greiningar voru helstar:

  • Ég er (eins og mig grunaði) baritón, og nær því að vera bassi en tenór
  • Raddsviðið er ekki sérlega breitt, en slefar líklega í tvær áttundir á góðum degi
  • Ég á erfitt með að hitta beint á tón sem spilaður er á píanó, en tekst þó yfirleitt að finna eitthvað sem hljómar með viðkomandi tóni (n-und)
  • Ég á mun skár með að syngja með tóni sem sunginn er af mannsrödd
  • Ég hef tilhneygingu til að fletja út laglínur, þ.e. fara ekki alveg jafn langt upp eða niður og til er ætlast, heldur finna einhvern milliveg (sem þó er sjaldnast beinlínis falskur, aðallega óhreinn)
  • Fagmaðurinn hefur trú á að með æfingum og leiðsögn sé hægt að gera mig boðlegan gaulara (ho, ho)

Helgin fór annars í það að hitta fólk eftir því sem færi gafst milli æfinga og reyna að sofa út; spjall yfir einum öllari niðri í bæ á föstudaginn, Pizza Hut og DVD gláp á laugardaginn, dekkjaskiptingar, fahitas og vefráðgjöf á sunnudagskvöldið.

Ég er líka að rembast við að stílfæra forsíður Morgunblaða frá '49 til að þær sómi sér betur á sviði. Það er alveg ótrúlegt að sjá raunverulegar forsíðufyrirsagnir frá þessum tíma: "Þingkosningarnar í Noregi: KOMMÚNISTAR ÞURKAST ÚT - Einn kommi af 11 mun hafa "skriðið inn" á þingið", "Pieck forseti A.Þýskalands - "Kosinn" með samhljóða atkvæðum - Rússar ljetu ekki standa á hamingjuóskum", "Kommúnistar að taka Canton" o.s.frv. Fróðlegt væri að skoða forsíður Þjóðviljans frá sama tíma til að sjá öfgarnar í hina áttina.

Þessa dagana eru alls konar kvefpestir að grassera allt í kringum mann og þar sem það væri óheppilegt að veikjast svona skömmu fyrir frumsýningu er ég frekar paranojd gagnvart flensueinkennum. Var lítt hress í morgun, en trúlega var það nú bara svefnleysi.

Almennt er ég samt glaðbeittur og er m.a.s. að taka tönn á gamalsaldri (endajaxl í neðri gómi fyrir þá sem áhuga hafa á slíku).

En nú er hádegishléinu (löngu) lokið og mál að snúa sér aftur að því að vera upptekinn í vinnunni.


< Fyrri færsla:
Dansandi og syngjandi efnafræðingsgrey
Næsta færsla: >
Óskammfeilið leikhúsplögg
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry