Innkoma ársins

Generalprufa á Sirkusnum verður í kvöld og því telst æfing gærdagsins hafa verið lokaæfing. Hún gekk eftir því sem ég best veit ágætlega. Að vísu reyndi ég að haga mér eins og maður mun gera á alvöru sýningum og hélt mig því mest baksviðs og sá ekki allt sem fram fór á sviðinu, eitthvað var um textahik, en það held ég að sé normal þegar komin er smá þreyta í mannskapinn án þess að endurgjöf frá áhorfendum sé komin til að vega hana upp. Með öðrum orðum verður þetta örugglega betra með áhorfendum í kvöld.

Hins vegar má ég til með að lýsa glæsilegu fjöl-klikki sem átti sér stað í gær. Þannig er að úr búningsherberginu í Tjarnarbíói er hægt að fara út í port og þaðan komast inn um aðalinnganginn. Við notum okkur þessa leið þegar fjör fer að færast í leikinn og þá birtast persónur hlaupandi utan úr sal eða storma út af sviðinu og hverfa þá leiðina út. Þetta býður upp á skemmtilegar uppákomur fyrir saklausa vegfarendur um Tjarnargötuna sem geta átt von á furðuverum ýmiss konar út úr þessu porti.

Í einni senunni strunsar meirihluti leikflokksins einmitt niður af sviðinu og út um aðalinnganginn, við sirkuspésarnir verðum eftir á sviðinu og syngjum baráttusöng mikinn. Í gær gekk baráttusöngurinn ágætlega og um leið og við erum komin út af sviðinu er gengið í að breyta sviðsmyndinni fyrir næsta atriði. Hins vegar vildi svo til að bara hluti af sviðsmyndinni breyttist og svo datt á með dauðaþögn á sviðinu.

Í myrkrinu baksviðs vorum við að reyna að átta okkur á því hvað væri að gerast (eða ekki að gerast) þegar heyrðist dauft kall úr fjarska:

Við erum læst úti!

Þá hafði hurðin á búningsherberginu skollið í lás og a.m.k. 7 leikarar sátu fastir í portinu, þar á meðal meirihluti þeirra sem áttu að breyta sviðsmyndinni og allir leikararnir sem áttu að byrja næstu senu. Þetta varð eiginlega tragikómísk innkoma, en þar sem þetta gerðist ekki á alvöru sýningu gátu allir hlegið að þessu.

Það var annars helst fréttnæmt að ég var kominn í rúmið fyrir miðnætti! Að vísu vantaði klukkuna ekki nema tvær mínútur í og ekki náði ég að sofna alveg strax, en þetta er samt fréttnæmt.

Generállinn nálgast, og ég treysti því að lesendur vorir fjölmenni á frumsýningu á morgun (nú eða einhverja aðra sýningu).

Farinn í fótbrot.


< Fyrri færsla:
Óskammfeilið leikhúsplögg
Næsta færsla: >
Frumið sýnt og fleira
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry