Frumið sýnt og fleira

Þá er viðburðarík helgi að baki sem stuttlega skal grein fyrir gerð.

Hinn glæsti sirkus

Fyrst er það til að taka að generalprufa á föstudag gekk prýðisvel og létu tilraunadýr í salnum ágætlega af sýningunni. Yfirgefinn skrifborðsstóll í sviðsvinstrivæng olli reyndar sirkusnum ákveðnum útgöngutöfum en því tókst að bjarga. Enginn læstist úti að þessu sinni.

Eftir æfingu var haldinn herráðsfundur á Andarunganum og spjallað svona bara rétt aðeins örlítið fram yfir miðnættið yfir bara svona rétt aðeins örlítið rúmlega einum bjór.

Indælt hefði verið að fá að sofa út á laugardeginum en allri hersingunni var stefnt niður í leikhús til að setja upp nokkur atriði fyrir sjónvarpið. RÚV afboðaði þannig að menn þvældust um geispandi í búningum og með stríðsmálningu meðan beðið var eftir Stöð 2. Upptakan tók svo ekki nema 3 mínútur eða svo og þá var hægt að skrúbba af sér gyllinguna og kíkja í velling á Fálkagötu.

Þaðan var haldið í mannmergðina í Kringlunni til að kaupa skírnargjöf til Vilborgar frá okkur föðursystkinunum og tókst það að ég held ágætlega - sérstaklega í ljósi þess að við höfðum enga hugmynd um hvað við ætluðum að kaupa þegar lagt var af stað.

Ég dormaði svo aðeins yfir fótbolta á Fálkagötunni áður en ég fór heim, skellti í mig kvöldmat, sturtaði og skóf á mér kjammana fjórða daginn í röð áður en ég brunaði niður í leikhús.

Í stuttu máli gekk frumsýningin prýðilega, hlegið á öllum helstu stöðum og engin teljandi klikk (a.m.k. ekki sem áhorfendur tóku eftir).

Að vísu kom leikstjórinn baksviðs rétt fyrir forspil og benti okkur á að leikmyndin sneri ekki rétt. Voru þá góð ráð dýr (en engin tígrisdýr) og hnífakastarinn mynstraður í að snúa flekum "með leynd" í blackoutinu fyrir fyrstu innkomu. Að auki vantaði eitt smjörbréf á skrifborð, dúskur lenti í vanskilum og a.m.k. ein símhringing var hljóðlaus, en eins og áður sagði held ég að áhorfendur hafi ekki tekið eftir þessu.

Leikhópurinn var enda í góðum gír og menn sýndu útsjónarsemi við að snúa sig út úr smáklikkum. "Mikið er nú Mogginn eitthvað seinn í dag...".

Að afloknum hneigingum, bukti og beygingum var geði blandað við frumsýningargesti og síðan hafist handa við að pakka leikmyndinni út í horn þar sem hún verður geymd fram að næstu helgi þegar næst verður sýnt.

Þá var skálað í freyðivíni og sporðrennt flatbökum, mannskapurinn merktur með snotrum barmmerkjum og trúðsnefjum áður en haldið var út á Eyjaslóð í frumsýningarpartí.

Á Slóðinni var góð stemmning og hafðir í frammi margvíslegir tónlistartilburðir og meðal annars leikið á gítar (sem fljótlega varð fimmstrengja), tvær bongótrommur, blokkflautu, orgel, klarinett, ótal söngraddir og að ógleymdu þríhorni. Gamlir og nýir slagarar í hefðbundnum og óhefðbundnum útfærslum.

Þarna greip ég meðal annars í klarinett í fyrsta sinn í ein 15 ár. Gekk prýðilega að ná úr henni tóni, en ekki mundi ég nú nein lög til að spreyta mig á. Það munar samt um að vera með fyrsta stig á klarinett!

Að gleði lokinni tölti maður heim á sjöunda tímanum og lagðist til svefns hinna réttlátu listamanna.

Á sunnudeginum vaknaði ég rétt rúmlega eitt til að hafa mig til í skírn Vilborgar. Blessunarlega var ég laus við þynnku þegar ég vaknaði, en örlítið vantaði nú upp á fullan svefn. Eftir athöfnina sem haldin var heima í Fjóluhvamminum voru snæddar dýrindis kökur, bökur og brauð. Áhrif þess áts voru gríðarleg syfja um allan skrokk, en ég þraukaði (með herkjum) og stóðst freistinguna að lauma mér inn í rúm og leggja mig með hinni nýskírðu dömu og afa hennar.

Þegar heim var komið um áttaleytið átti ég ekki von á öðru en að ég rétt næði að troða nokkrum brauðsneiðum í andlitið á mér áður en ég myndi örmagnast, en þvert á móti var ég glaðvaknaður aftur og fór bara að sofa á "skikkanlegum" tíma - og sofnaði frekar fljótt.

Nú er skyndilega komin upp sú áður óþekkta staða að ég á fríkvöld... mörg fríkvöld. Spurning í hvað þau munu fara, en eitt verkefnanna sem takast þarf á við er að breyta þessum ruslahaug sem ég sit nú í aftur yfir í eitthvað sem minnir á mannabústað. Það ætti að hafast með samstilltu átaki alls heimilismannsins.

Næst sýnt á sunnudag. midasala@hugleikur.is

Olía smolía!


< Fyrri færsla:
Innkoma ársins
Næsta færsla: >
Mútutilraun og klósettferð til fjár
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry