Mútutilraun og klósettferð til fjár

Í gær fékk það sem næst kemst því að vera mínar fyrstu mútur sem opinber starfsmaður. Ónefnd prentsmiðja sendi mér bæklinga til að kynna þjónustu sína og með í umslaginu fylgdi forláta nafnspjaldaaskja úr afskaplega hágljáandi málmi. Maður hefur svo sem fengið einhverja pennaræfla og svoleiðis gegnum tíðina en þetta er miklu flottara. Það eina sem spillir er að í stað þess að nota tækifærið og grafa nafnið mitt á lokið hafa þeir gerst svo ósvífnir að setja þar sitt eigið lógó, sem lýsir náttúrulega algerum misskilning á eðli mútugripa og breytir þessu næstum í ómerkilega auglýsingu. Ég er fyrir vikið frekar sár og er ekkert viss um að ég fari að beina til þeirra frekari viðskiptum (enda hef ég kannski ekki svo mikið um það að segja þegar allt kemur til alls).

Upp á síðkastið hefur forláta þráðlausi Ericsson heimilissíminn minn farið að sýna af sér elliglöp. Það hefur komið fyrir að ég sitji í makindum heima þegar gemsinn hringir og viðmælandinn hváir þegar í ljós kemur að ég sé heima - hvers vegna ég hafi ekki svarað í heimilissímann. Ég lenti meira að segja í þessu sjálfur þegar ég var að fikta í stillingum á gemsanum, hringdi í sjálfan mig og hélt fyrst að ég hlyti að hafa valið vitlaust númer, hringdi aftur og enn heyrði ég hringitón í gemsanum en heimasíminn hélst þögull sem gröfin. Við þetta bætist að einstaka sinnum neitar hann að gefa mér són svo ég þarf að endurræsa hann til að fá í hann lífsmark.

Ég sá því fram á að þurfa að gefa út á hann dánarvottorð og kaupa mér nýjan þráðlausan síma. Mér sýnist í fljótu bragði að þokkalegan síma fái ég ekki fyrir minna en 9-11 þúsund - sem mér finnst blóðugt þar sem gamli síminn virkar í yfir 95% tilvika, það er bara ekki hægt að treysta honum alveg 100% lengur.

Svo var það í gær þar sem ég sat á prívatinu og lét hugann reika að ég fattaði að það er óþarfa bruðl að kaupa nýjan þráðlausan í stað þess gamla. Ég fæ mér bara ódýran síma með þræði og sting í samband í svefnherberginu, þá ætti a.m.k. annar þeirra að hringja og vandamálið úr sögunni. Þráðsíma hlýt ég að fá á innan við 2 þúsund kall og er þar með búinn að "græða" a.m.k. 7 þúsund krónur! Þá er bara að passa að kaupa eitthvað skemmtilegt fyrir þann pening svo maður slysist ekki til að eyða honum í einhverja vitleysu eins og mat eða reikninga. Ábendingar að einhverju skemmtilegu til að kaupa fyrir 7 þúsund kall eru því vel þegnar.

Tók svo örstutt útskokkelsi í framhaldi af þessari hugljómun, hljóp varla nema 3 kílómetra en það dugði til að koma aðeins út á mér svita (og finna áður óþekkta götu í hverfinu mínu).

Eftir kvöldmat settist ég svo við tölvuna og er núna búinn að flytja allar dagbókarfærslurnar mínar (nema þessa) inn í gagnagrunn, er búinn að setja upp viðhaldskerfi og á bara eftir að græja birtingarlógík fyrir "archives", þ.e. til að birta færslur ákveðins mánaðar eða árs. Það verður lítið mál þegar ég kemst í það. Fyrir forritunarnörda má geta þess að þar sem ég treysti mér ekki í mod_rewrite ætla ég að skrifa lógík fyrir 404 síðu til að brjóta niður "krúttleg" URL og búa til parametra sem ég get unnið með.

Ekki verður meira tæknibablað í dag.


< Fyrri færsla:
Frumið sýnt og fleira
Næsta færsla: >
Glimrandi dómur í Mogganum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry