Vasabræður komnir heim og sýnt sem aldrei fyrr
08. mars 2004 | 0 aths.
Fyrr í dag komu þeir föðurbræður mínir aftur til landsins eftir gönguna frækilegu í gær. Haldið var móttökuteiti þeim til heiðurs og báru þeir sig allir vel.
Það kom reyndar í ljós að þeir höfðu sumir verið tæpari á reipinu en ég hafði áttað mig á (þ.e. verið við það að falla á tíma) en allt slapp það til - þótt ekki hefði miklu mátt muna. Reyndar mun víst sporið sjálft sjaldan hafa verið verra og munar um minna fyrir óreynda menn.
Í gær var önnur sýning á Sirkus og eins og allir sem þekkja til leikhúsa vita þá er það alræmt að önnur sýning er oft mun síðri en frumsýning. Svo varð þó alls ekki hjá okkur.
Þar munaði eflaust miklu um að fyrr um daginn tókum við rennsli og það með svokölluðu ítölsku tempói. Það þýðir að menn reyndu að ryðja út úr sér textanum eins hratt og mögulegt var - alveg burtséð frá leikrænum tilþrifum. Þetta reyndist hin besta skemmtun og sumar senur fengu alveg nýja vídd þegar svör voru jafnvel komin á undan spurningum og menn leyfðu sér örlítinn spuna á köflum.
Sýningin sjálf gekk svo glimrandi vel og það voru mun færri textaklikk og hik heldur en á frumsýningu (sem þó gekk líka glimrandi vel). Í hléi kom í ljós að við höfðum verið 10 mínútum röskari að flytja fyrri hlutann heldur en áður. Það stafaði ekki af því að eitt atriði hefði gleymst (eins og einhver lagði fram sem hugsanlega skýringu) heldur bara að öll samtöl gengu hratt og örugglega fyrir sig.
Ég hef því trú á að sýningarnar um næstu helgi verði bráðskemmtilegar og treysti á að þar verði góð mæting. Meira plögg síðar, nú ætla ég að reyna að forrita smá...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry