Líf forritunarnördsins

Ég er búinn að vera að bardúsa við það undanfarin kvöld að snurfusa forritunina á þessari dagbók. Þar hefur gengið á ýmsu og yfirleitt hefur ein lagfæring leitt af sér tvo óvænta hnökra og miklar hárreytingar. Þetta er þó allt að mjakast og núna er ég búinn að breyta vísunartækninni frá því að nota 404 síðu yfir í að nota mod_rewrite eins og alvöru for-dritari. Fyrir þá lesendur sem fölna við þetta forritunartal mun ég nú vinda mér yfir í aðra sálma... í bili.

Þriðja sýning á Sirkus var í gær og gekk að ég held prýðilega - ekkert um teljandi hnökra sem ég tók eftir. Nema kannski að ég missti stoðtæki mitt í þann mund sem við vorum að geysast inn á svið með miklum hávaða og pati handa og fóta - bjargaðist þó allt og ekki sér á stoðtækinu. Næsta sýning í kvöld.

Eftir sýninguna kíkti ég með "mínum gestum" á Ljóta Andarungann þangað sem leikflokkurinn birtist svo skömmu síðar. Þar voru sötraðir örfáir bjórar eitthvað fram yfir miðnættið, prýðilegt í alla staði.

Á föstudaginn lauk vinnudeginum á heimsókn véla- og iðnaðarverkfræðinema þar sem ég sá um hlutverk gestgjafans eins og venjulega. Þar voru nokkrir nemendur úr mínum fyrsta umsjónarbekk; 2.N í Kvennó sem könnuðust við sinn gamla læriföður (og ég við þau) - gaman að hitta gamla nemendur, sérstaklega þá sem manni líkaði vel við :)

Viðvörun: Meira tölvunördatal.

Það gekk ekki þrautalaust að koma mod_rewrite lausninni í gang því sama hvað ég hef reynt - mér bara tekst ekki að fá mod_rewrite í gang á Apache þjóninum mínum hérna heima og hef því þurft að fikta mig áfram á hýsingarþjóninum. Þetta ætti að vera komið í lag núna og ógurlegar Regular Expression reglur stýra dagbókarumferðinni rétta leið.

Reyndar var 404 leiðin að ganga upp, en var kannski óþarfa hakk. Sérstaklega hef ég áhyggjur af því að minn góði vinur Google myndi kannski ekki fella sig við þá leið - en hann ætti að vera fyr og flamme yfir nýju leiðinni.

Auðvitað ætti maður núna að fara að snúa sér að því að sinna forritunarverkefninu sem ég fæ þó borgað fyrir að sinna, reyni að finna tíma fyrir það fljótlega.

Og svo er það blessuð skattaskýrslan... Ætli mér takist nú einu sinni að skila henni án þess að þurfa að kría út frest? Það ætti ekki að vera nema klukkutíma verk að tína til þessar örfáu tölur sem upp á vantar en einhvern vegin efast ég um að mér takist það á tilskyldum tíma...

Að lokum: Sirkus, sirkus, sirkus og sirkus!


< Fyrri færsla:
Ofið og greitt úr flækjum
Næsta færsla: >
Mánudagur til sólar og smölunar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry