Mánudagur til sólar og smölunar

Sýning gærkvöldsins á Sirkus gekk prýðilega. Frekar fáir höfðu bókað miða, en með samstilltu átaki í smölun tókst á stuttum tíma að safna í prýðilegan sal.

Fyrir sýningu kom ljósmyndari frá Morgunblaðinu og tók myndir af okkur hnífakastara "hjónunum". Þær verða eflaust mjög artí þar sem okkur var stillt upp í margs konar pósur og teknar myndir frá ýmsum óvenjulegum sjónarhornum. Mér skilst að eitthvað verði um okkur fjallað í næsta föstudagsblaði.

Sjálfur smellti ég svo af nokkrum myndum í búningsklefanum meðan á sýningu stóð, ég á hins vegar eftir að skoða hvort þær séu birtingarhæfar.

Við Margrét höfðum brugðið okkur í Hafnarfjörðinn fyrr um daginn og heilsuðum upp á heimilisfólk. Afmælisbarnið Vilborg (4 mánaða) steinsvaf og sleppti því alveg að heilsa upp á föðurbróðurinn áður en hann þurfti að bruna til höfuðborgarinnar í sturtu og rakstur fyrir myndatökur. Við fengum þó myndasýningu í staðinn :) Margrét föðursystir varð eftir og ég treysti því að hún hafi séð um að spilla Vilborgu fyrir mína hönd.

En nú ætla ég í þessari viku að bretta upp ermar og reyna að smala vinum og kunningjum á næstu sýningu, sem verður á laugardaginn kemur. Ef þú tilheyrir þeim hópi hefur þú hér með fengið viðvörun!

Hafirðu ekki fengið frá mér áskorun um miðja viku er það ekki ástæða til vinskaparslita - sendu mér bara línu og ég skal glaður skella þér og þínum á pantanalista :)

Svo veit ég varla hvað ég á að gera af mér í allri þessari sól og birtu. Rigningin var búin að standa svo lengi að ég var næstum farinn að venjast henni (en bara næstum). Líklega er málið bara að draga fyrir gluggana og halda mig inni við... Og þó.

"Bara að hann Hyrnu-Flekki minn væri hérna..."


< Fyrri færsla:
Líf forritunarnördsins
Næsta færsla: >
Og sumarið er fyrir bí...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry