Og sumarið er fyrir bí...

Ég fór með bílinn í 3 ára skoðun í umboðið í síðustu viku. Ég vissi af því að miðstöðin var með stæla og að eitthvað þyrfti að gera við hana. Vitandi það að svona skoðanir eru rándýrar fannst mér spennandi að sjá hvort hún myndi kosta meira eða minna en Dæhatsúinn sem ég seldi síðasta vor.

Svo kom að sjálfsögðu ýmislegt fleira í ljós þegar farið var að krukka í gripinn og hann þurfti að liggja inni yfir nótt. Þegar ég sótti hann var einhver bilun í tölvukerfinu þannig að þeir sendu reikninginn í pósti.

Reikningurinn barst svo heim í gær og ég er bara feginn að ég fékk ekki að vita töluna þegar ég sótti bílinn, ég hefði líklega fengið flog! Reikningurinn reyndist á þremur blaðsíðum og 50% hærri en svartsýnar áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Það er svo til marks um dugleysi minnar kynslóðar í formælingum að í stað þess að samtvinna kröftugum íslenskum blótsyrðum með stuðlun og tilfinningu varð mér það fyrst fyrir að hvísla nafn frelsarans með amerískum framburði.

Mín næsta hugsun var að þar með væri sumarfríið fyrir bí, engin utanlandsferð þetta árið heldur yrði setið heima og étin hrísgrjón.

Frekar en að leggjast í einhvern bömmer yfir þessu fór ég hins vegar í langa gönguferð um vesturbæinn í kvöldsólinni. Prýðilegt alveg hreint.

Ég er ekki týpan til að gera veður úr svona, enda hef ég ekki hundsvit á bílum nema bara rétt til að keyra þá (og tæplega það). Ég gæti til dæmis ekki skipt um bremsuklossa þótt líf mitt lægi við. Mín viðbrögð verða líklega bara þau að kaupa mér bíl frá öðru umboði næst.

Stærðargráðan á reikningnum minnir helst á það þegar eitthvað bilar í jeppanum hans pabba (sem mamma á auðvitað með honum). Hann er líka frá Heklu og svo ég vitni í Hávarð Karl: "Tilviljun? Ég held ekki!"

Ég á reyndar fyrir þessu, en frekar hefði ég viljað nota peningana í að kaupa mér sófa eða eitthvað því um líkt, en get þó glaðst yfir því að bíllinn ætti að virka fínt þegar ég fer á honum í Bónus að kaupa hrísgrjón.

Í dag er hins vegar sól og blíða og ég ætla bara að hugsa fallegar hugsanir.


< Fyrri færsla:
Mánudagur til sólar og smölunar
Næsta færsla: >
Samúð rignir inn...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry