Horft um helgaröxl
21. mars 2004 | 0 aths.
Voðalega líða þessar helgar skelfilega hratt! Maður er varla kominn heim úr vinnunni á föstudegi þegar komið er seinnipartur sunnudags. Þetta er annars búin að vera afslöppuð helgi og nokkuð letileg, en þó hef ég haft sitthvað fyrir stafni.
Föstudagskvöldið fór í letistúss, það hafði staðið til að ég færi í kvöldverðarboð, en vegna veikinda féll það niður. Hugleikur var á leið á sýningu hjá Leikfélagi Kópavogs sem ég var búinn að afskrifa vegna kvöldverðarboðsins, en þegar möguleikinn á því að fara í leikhús opnaðist aftur var ég einfaldlega of latur til að nenna að hafa mig af stað. Ég rölti þó í hressingargöngu í Ríkið rétt fyrir lokun (í nýju dúnúlpunni), það var ágætlega hressandi og nýja úlpan reyndist vel í kvöldkulinu en ég nennti samt ekki að fara í leikhús.
Þess í stað var ég að dunda mér hér heima við, tók aðeins til í tölvunni, þvoði upp og dedúaðist smávegis.
Á laugardeginum fórum við Mardí systir í hressingargöngu mikla, inn í Skerjafjörð og svo vestur með Ægissíðunni heim til mín. Þar fengum við okkur snarl og fórum svo í bíltúr um borgina og nærsveitir.
Svo var það sturta og rakstur fyrir leiksýningu og ég var kominn niður í leikhús að hjálpa til við að setja upp leikmyndina og græja þess háttar stúss rétt rúmlega 5. Eftir leikmyndaruppsetningu og upphitanir (sem meðal annars fólust í þeim merka strategíuleik "zip, zap, boing" sem ég var að leika í annað sinn á ævinni og stóð uppi sem annar tveggja sigurvegara (reyndar með low profile strategíunni, fylgdi að mestu leyti bara straumnum).
Sýningin gekk ágætlega og aðsóknin var fín. Ég held reyndar að það hafi sjaldan verið jafn mörg textaklikk og í gær, en áhorfendur tóku varla efnir nema örfáum þeirra. Venju samkvæmt klikkaði ég ekki á texta! Mínir gestir létu vel af sýningunni og skemmtu sér vel.
Eftir sýninguna var farið á Ljóta andarungann eins og lög gera ráð fyrir. Heldur var þó leikhópurinn þreytulegur og flestir fóru heim um hálf-eittleytið.
Í morgun fór ég svo í sérlegt Vasa-bröns með þeim föðurbræðrum mínum og frúm (auk fleiri fjölskyldumeðlima). Þar voru skoðaðar myndir og sagðar enn fleiri frægðarsögur. Mjög skemmtilegt.
Ég mun fljótlega fara í smá uppfærslu á Vasavefnum, en á eftir að græja nokkrar ljósmyndir til að það verði sómasamlegt.
Í millitíðinni er ég búinn að setja inn nýjar myndir af Vilborgu sem foreldrarnir eru löngu búnir að senda mér. Af henni er það helst að frétta að hún var í pössun hjá föðursystur sinni meðan foreldrarnir brugðu sér í leikhús og gekk það vel að sögn kunnugra.
Rétt í þessu steig ég líka stórt skref í skattaskýrsluskilum mínum og sótti um frest! Annað skref steig ég í gær þegar ég keypti mér möppu til að flokka í yfirlit og kvittanir sem skýrslugerðinni tengjast. Nú get ég því með góðri samvisku sett tærnar upp í loft í viku til viðbótar :)
And that's all I have to say about that...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry