Vísir að leikhöfundi í glímu við útlenska skriffinnsku

Undanfarið hefur dagsmynstrið hjá mér einkennst af því að vera glaðvakandi fram á nótt, vakna síðan með ferskleikastig úldinnar borðtusku og drattast allt of seint af stað í vinnuna. Skynsemin segir mér að það sem mig vanti sé hreyfing til að koma blóðrásinni og púlsinum af stað - og byrjendanámskeið í jóga til að ná púlsinum aftur niður.

Það var reyndar skemmtileg tilbreyting í því í gær að fara "í krafti embættis míns" með borgarstjórnarfulltrúa frá Hull í skoðunarferð um borgina í blíðskaparveðri.

Sirkus verður sýndur í kvöld og hvet ég enn og aftur lesendur til að bregða sér í leikhús.

Það er líklega fylgifiskur áhugaleikarans að standa í smölun gesta. Mér telst svo til að hjá mér sé í vinnslu að smala 26 gestum úr ýmsum áttum á komandi sýningar (þ.e. gestirnir eru áhugasamir, vandamálið er að finna tíma sem hentar). Þó hef ég ekki lagt á þetta áherslu á vinnustaðnum mínum (fyrir utan að hengja plaköt upp um allar hæðir). Ég impraði á þessu í kaffitíma um daginn en áhuginn og geislandi lífsgleðin var í slíku lágmarki að ég ætla að leyfa mínu blessaða samstarfsfólki alveg að eiga sig á þessu sviði. (Æi, ég nenni ekki að fara að tuða yfir stemmningunni á hæðinni, það leiðir bara til pirrings).

Betur verður tekið á leyfilegri umræðu um vinnu og vinnufélaga í manifesto dagbókarinnar sem skal birt hér fyrir næstu aldamót eða ég liggja dauður ella.

Annars uppgötvaði ég það um daginn baksviðs á sirkusnum að ég skrifaði fyrir nokkrum árum texta sem hægt er að kalla vísi að leikriti (eða kannski réttara sagt vísi að einþáttungi). Þar er að sjálfsögðu átt við hið geysivinsæla verk Vel klæddur maður. Í minni barnslegu gleði yfir þessari uppgötvun deildi ég henni með hverjum sem hlusta vildi (og eflaust nokkrum til viðbótar). Í framhaldi af þessari uppgötvun var mér svo boðið á höfundafund Hugleiks í gærkvöldi.

Það reyndist bráðskemmtileg samkoma þar sem lesnir voru mislangt komnir einþáttungar og eintöl af ýmsum sauðahúsum. Mikið af skemmtilegum pælingum; hundakúnstum, Guðmundum, máluðum lausaleikskrógum, uppgjörum og kúkableyjum.

Á leiðinni heim í gærkvöldi tóku að mótast hugmyndir um að breyta sögunni um par sem hittist á bar yfir í samtal þriggja karlmanna í lyftu - augljós yfirfærsla, ekki satt?

Í hálfkveðnum vísum dagsins ber það hæst að ég er að lenda í óvæntum árekstri við útlenda bjúrókrasíu fyrrum nýlenduherra í tengslum við framtíðarverkefni sem ég hef verið að spá í. Það versta við þennan árekstur er að hefði ég byrjað eftirgrennslan nokkrum vikum fyrr hefði mátt komast hjá honum - en það er bara svo helv. fjarri íslenskum hugsunarhætti að gera ráð fyrir rúmlega tveggja mánaða umsóknarfresti vegna minniháttar tækniatriða... Nú reynir á hvort hægt sé að beita íslenskum bolabrögðum og undirróðursstarfssemi til að liðka fyrir þessum málum. Brett skal upp á stuttermarnar og tekist á við báknið!

Þessi óvænta fyrirstaða hefur ekki orðið til að auka einbeitingu í vinnunni (sem hefur ekki verið með alhæsta móti undanfarið, þótt Hull rúnturinn hafi haft góð áhrif). Það kómíska í þessu er að eitt af þeim verkefnum sem setið hafa á hakanum víðfræga síðustu daga er tiltekt á forsíðunni á vef sviðsins. Ef það er eitthvað sem ég á að hafa reynslu af í vefbransanum þá er það að leika mér með gula miða og stilla upp gábbulegu leiðarkerfi - en einhverra hluta hefur það í þessu tilviki reynst mér um megn (svo vitnað sé í menn stuðsins).

Annars er verið að vígja hér á vinnustaðnum nýja kaffivél af sömu gerð og nærði mig á heitu kakói um tveggja ára skeið meðan netbólan var upp á sitt besta. Aldrei að vita nema endurfundir við þann eðla drykk dugi til að ég hrökkvi aftur í gulmiðagírinn líkt og á gullaldarárunum.

Allir í sirkus, svo takast megi að afstýra menningarslysi.


< Fyrri færsla:
Horft um helgaröxl
Næsta færsla: >
Fimmtudagssýning og efnafræði
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry