Dagbók sjúklings
31. mars 2004 | 0 aths.
Ég lufsaðist heim úr vinnunni um þrjúleytið í gær, enda ljóst að afköstin voru lítil sem engin og allt eins gott að koma sér heim og leggjast undir sæng. Ég lét mér reyndar nægja að leggjast undir teppi og horfði á Saving Private Ryan á DVD með tilheyrandi snýtum, hálstöflum og parasetamóli.
Eftir kvöldmat sá ég að ég yrði að reyna að drusla mér af stað í skattskýrslugerðina því þar styttist í snörunni og tilhugsunin um að rembast við skattskýrslu með hitavellu og ömurlegheitum var lítt spennandi. Það hefur verið sjón að sjá mig sitjandi við tölvuna með þurrkubox mér á hægri hönd og skattapappíra fljótandi yfir skrifborðið sem þó var þakið drasli fyrir og bætti ekki úr skák þegar snýtubréfsfjallið tók að vaxa.
Eins og venjulega var ég ekki búinn að flokka nema hluta af pappírunum inn í möppu, en treysti á að allt sem máli skipti hefði endað í pappírakassanum sem hún móðir mín gaf mér fyrir nokkrum árum. Það gekk líka eftir að ég fann allt það helsta og skrökvaði afgangnum. Helst var það umfangsmikið hlutabréfabrask mitt á árinu sem vafðist fyrir mér og yfirlestrargræju skattstjóra - af hverju geta verðbréfafyrirtækin ekki druslast til að setja kennitölurnar sínar á kvittanir fyrir viðskiptum? Þjóðskráin bjargaði mér með kennitölur helstu fjármálastofnana og móttakan var samþykkt. Bráðabirgðaútreikningur gaf til kynna að ég gæti átt von á nokkrum þúsundköllum í sumar í formi vaxtabóta.
Þekkjandi sjálfan mig þá var það frekar óheppilegt að mér skyldi takast að klára framtalið án þess að þurfa að flokka allt inn í möppu - því nú á ég ekki eftir að gera handtak fyrr en eftir ár og þá verður allt komið í óefni. En eins og danskurinn segir: Den tid, den sorg.
Að skattskýrsluskilum loknum tók ég til við að tússa yfir rauð augu Vilborgar Erlendsdóttur og nýr myndaskammtur birtist hér með. Þegar leið á kvöldið fór hitinn að magnast og ég skreiddist kappklæddur upp í rúm. Það jafnast fátt á við gott romm til að slá á hóstann, ég mæli með DonQ frá Puerto Rico og ef eitt staup dugir ekki er bara að fá sér annað!
Ég hafði ákveðið að vera ekkert að sperra mig í vinnu, enda kom í ljós að ég var langt frá því að vera hress í morgun. Skánaði heldur þegar ég var búinn að fá mér hádegismat og núna undir kvöldið er ég orðinn alveg þokkalegur (nema rámur og með smá hósta). Geri því ráð fyrir að snúa aftur til skyldustarfanna á morgun.
Fyrir þá lesendur sem höfðu áhyggjur af díhýdrógenmónoxíð færslunni minni um daginn skal upplýst að það skaðræðisefni má skrifa með formúlunni H2O og þykir almennt óhætt til manneldis.
Jafnvel efnafræðingurinn þurfti aðeins að klóra sér í kollinum, því þótt segja megi að þetta nafn gangi upp þá er þessi framsetning töluvert langsótt - enda leikurinn til þess gerður.
Fleira var það ekki að sinni.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry