Så har man fødelsesdag
02. apríl 2004 | 0 aths.
Þá er runninn upp þessi merkilegi dagur þar sem maður vaknar heilu ári eldri en maður fór að sofa kvöldið áður. Reyndar að því gefnu að maður hafi sofnað fyrir miðnættið, annars á eldingin sér stað í vöku. Það stóð eflaust tæpt hjá mér í gærkvöldi og ég er hreinlega ekki viss hvort ég var sofnaður fyrir miðnætti eða ekki - það hefur í gegnum tíðina reynst mér frekar erfitt að veita því athygli nákvæmlega hvenær ég sofna.
Það verður varla mikill afmælisbragur á deginum, strax eftir vinnu mun ég bruna heim og skafa skeggbroddana framan úr mér, grípa svörtu fötin og halda bruninu áfram niður í leikhús til að setja upp leikmyndina. Ég mun sem sé standa á sviði á afmælisdaginn minn - nokkuð sem ég hef aldrei gert áður.
Varðandi aprílgabb gærdagsins þá verð ég að viðurkenna að ég varð fyrir vissum vonbrigðum með það að lengi vel stefndi í að enginn sendi póst á netfangið góða sem ég bjó sérstaklega til í þessu skyni. Ekki það að ég ætti von á því að nokkur tryði sögunni, en ég vonaðist til að fá handfylli glaðbeittra kommenta í pósti. Úr þessu rættist þó í morgun þegar ég sá að einn fornvinur hafði skráð sig í ferðina og kann ég honum bestu þakkir fyrir.
Annars er það af gabbinu að segja að þessi saga var samin á leið í vinnuna í gær og hafi plottið verið þunnt stafar það af því að ég er ekki sérlega lengi að aka þessa leið.
Þó skal þess getið að ég fékk nokkrar hamingjuóskir með trúlofunina "tounge-in-cheek" (eins og úllarnir [þ.e. útlendingarnir] segja sumir) í símtölum og MSNtölum.
MSNtal er nýtt orð, svona tölvuorð... Sérstaða þess felst meðal annars í því að hefjast á fjórum samhljóðum og þar af þremur hástöfum. Reyndar hefur málnefnd gert tillögu um ritháttinn msntal sem fellur betur að íslenskri málhefð en er ekki alveg jafn tæknó.
Sögur herma að dánarbú Tals hf. hafi ráðið lögfræðing til að athuga hvort grundvöllur sé fyrir því að setja lögbann á þetta nýyrði meðan unnin sé viðskiptaáætlun um hugsanlega hagnýtingu þess.
Stefnan er sem sé tekin upp á svið í kvöld og aftur annað kvöld. Blessunarlega þarf ég ekki að fara með langa texta því þau skötuhjúin raddfegurð og raddstyrkur hafa verið í betra ásigkomulagi. Það kemur í ljós í upphituninni hvort ég neyðist til að mæma í sönglögunum eða hvort ég fái að færa allt klabbið niður um tvær, þrjár áttundir eða svo.
Hið obligatoríska kökukaffi með systkinum mun eiga sér stað einhvern tíman um helgina þegar færi gefst. Lesendum sem ekki er boðið í afmælisveislu er bent á að láta það ekki á sig fá - það verður engin afmælisveisla haldin í ár, en kannski væri hægt að slá upp eins og einu partí áður en brestur á með skammdegi aftur.
Þessi síðasta setning minnir á hina gullnu hendingu "það verður engin stúdentshúf' í ár", en þar sem sú tilvitnun kemur þessari færslu nákvæmlega ekkert við skil ég satt best að segja ekki hvað hún er að gera hér!
Fyrir þá sem vilja gleðja afmælisbarnið jafnvel þótt ekki sé boðið í afmælisveislu skal gripið til klisjunnar: "Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir, en ábendingar um álitlegar einhleypar vinkonur eru alltaf vel þegnar".
Vakin er sérstök áhersla á kaldhæðninni og/eða örvæntingunni sem lesa má út úr þessari síðustu línu og viðfangsefni aprílgabbsins....
Nú ætla ég að hætta þessu og setja hér . (punkt)
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry