Tjaldið fallið
18. apríl 2004 | 0 aths.
Lokapartíið í gær tókst prýðilega og ég var með síðustu mönnum út. Þrátt fyrir örlitla gjólu var þrammað heim á tveimur jafnfljótum í flennibirtu um fimmleytið (kannski það sé að fara að koma sumar?)
Vekjaraklukkan gall um hálfeittleytið "í morgun" og eftir stutt tékk á líkamlegu ástandi og staðgóðan morgunverð þrammaði ég niður í bæ til að hjálpa til við að tæma Tjarnarbíó.
Þar var mætt nokkuð rösk sveit sem snaraði leikmyndinni fram í anddyri og setti síðan upp einþáttunginn "Beðið eftir sendiferðabíl". Meðfylgjandi myndir voru teknar meðan á flutningi verksins stóð:
Siggi, Hjalti, Einar, Kári og Jón í uppréttri stöðu. Halla Rún, Toggi og Júlía í dvergaeftirhermum.
Ég renndi lauslega yfir myndirnar sem ég hef tekið undanfarið á Sirkussýningum og komst að því að flassið er afskaplega óvægið við hvíta sminkið sem "Íslendingarnir" skarta framan af verki. Einhverra hluta vegna verða allir skellóttir og afskaplega lítt frýnilegir. Hins vegar gáfust næstum engin færi á að taka myndir af Íslendingunum eftir að þeir taka lit, því þá er ég önnum kafinn á sviðinu eða í búningaskiptum.
Af þessum sökum verða hér aðeins sýndar myndir teknar á lokasýningunni af sirkusfólkinu (enda hinar raunverulegu aðalpersónur verksins).
Hinn þýsk-rússneski hnífakastari Sehr Gay og hinn illi tvíburabróðir hans Sgt. Toro.
Sirkusinn tekur lit.
Sérlegur lokasýningarbroskarl á öxl Hjalta.
Fleiri myndir frá Sirkusdögum gætu birst síðar.
Annars ber þess að geta að undirritaður hefur verið ágætlega hress í dag, þótt eitthvað hafi orðið vart við viss einkenni ... (hóst) svefnleysis.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry