Öfug(með)mæli og alvöru meðmæli

Það hefur komið fyrir að ég noti þessa dagbók til að mæla með kvikmyndum, en þetta verður í fyrsta sinn sem ég mæli með að lesendur taki mynd sem er í raun ekkert spes!

Í gær horfði ég sem sé á myndina "Once upon a time in Mexico" (skábeint framhald af Desperado sem aftur var skábeint framhald af El Mariachi). Myndin sjálf er svona lala, söguþráðurinn og framvindan öll frekar teiknimyndaleg og ekkert verið að hafa of miklar áhyggjur af því að hún sé neitt sérlega lógísk. Hins vegar eru prýðis leikarar í henni og ágætur húmor - svona dæmigerð þynnku sunnudagskvöldsmynd.

Hins vegar er aukaefnið á DVD disknum bara hrein snilld og það eitt og sér er eiginlega þess virði að taka myndina (og hún er þá bara bónus). Leikstjórinn og altmuligtmaðurinn Robert Rodriguez brillerar þar í nokkrum stuttum kynningarmyndum sem eru konfekt fyrir þá sem hafa gaman af bíómyndum og tækninni á bak við þær.

Þarna eru myndirnar:

Ten Minute Flick School
Ábendingar frá meistaranum til þeirra sem hafa áhuga á kvikmyndagerð um þær aðferðir og þau trix sem nútímatækni býður upp á til að auðvelda mönnum að gera flotta mynd hratt og ódýrt.
Ten Minute Cooking School
Kennt að matreiða rétt sem mikið kemur við sögu í myndinni (og menn eru drepnir fyrir).
Inside Troublemaker Studios
Höfuðstöðvar framleiðslufyrirtækisins eru í skúrnum hjá Rodriguez - mjög flott.
Film Is Dead: An Evening with Robert Rodriguez
Fyrirlestur haldinn um stafræna upptöku versus hefðbundna filmunotkun - sérlega áhugavert og ekkert of tæknilegt.
The Anti-Hero's Journey
Frekar hefðbundin making-of, þó að mestu án helgislepjunnar sem einkennir þær.
The Good, the Bad, and the Bloody: Inside KNB FX
Líkamspartaverksmiðja heimsótt og farið yfir subbubrellur.

Skemmtilegt. Sérstaklega fyrir þá sem eru nettir tækninördar (og eiga DVD spilara).

Áfram í meðmælunum, ég rakst um daginn á vef með því stutta og þjála nafni Pixel Perfect Digital. Þetta er ljósmyndasafn með rúmlega þúsund ljósmyndum, af svipuðum skóla og hinir dæmigerðu stock photos vefir. Þessi er óvenjulegur að því leyti að myndirnar eru alveg ókeypis og mér sýnist af notkunarskilmálunum að maður megi gera næstum hvað sem er við þær nema að selja þær áfram eða halda því fram að maður hafi sjálfur tekið þær.

Það er kannski óþarft að taka fram að þessar myndir eru hörkuflottar, skarpar og í töff litum. Ég kem örugglega til með að nota þær í einhverju fikti í framtíðinni.

Í leiðinni ætla ég að lauma að ljósmyndavefnum stock.xhng sem er vefur þar sem ljósmyndarar senda inn myndir sem aðrir geta notað. Notkunarskilmálana stillir hver fyrir sig, sumar myndirnar má nota að vild, en í öðrum tilvikum þarf leyfi ljósmyndarans fyrst. Alltaf eru þær samt ókeypis.

Þarna eru núna um 50.000 myndir frá 2.500 ljósmyndurum af öllum gerðum og stærðum (þ.e. bæði myndirnar og ljósmyndararnir). Ég er m.a.s. með smá myndasafn þarna sem nota má að vild. Ég veit að ein af myndunum mínum hefur verið notuð á dagatal og í nokkrum vefverkefnum. Stefni að því að bæta við fleiri myndum þegar ég finn mér tíma (þ.e. er ekki upptekinn við að skrifa langar dagbókarfærslur). Þetta er skemmtilegur vefur sem hefur oft bjargað mér um myndefni til að nota í vinnunni.

Þessi innsláttur er í boði Hugsmiðjunnar.


< Fyrri færsla:
Tjaldið fallið
Næsta færsla: >
Stutt veðurspá
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry