Menningarviti í burðarliðnum?

Þau undur og stórmerki urðu rétt í þessu að ég fór í fyrsta sinn á óperu, glænýja óperu á gömlum grunni: "Hvar er Figaro?" hjá Óperudeild Nýja söngskólans. Það verður að segjast eins og er að ég skemmti mér alveg prýðilega!

Þetta er samsuða úr þremur óperum um rakarann Figaro, eftir Paisello, Mozart og Rossini. Klippt og skorið og endurraðað (skilst mér, ekki hef ég hundsvit á óperum).

Auðvitað hefði ég ekki farið nema af því að ég þekkti einhvern söngvaranna (enda var ég spurður í hléi af samstarfskonu minni: "Og hvern þekkir þú hérna?"). Sæberg félagi og fyrrum þjáningarbróðir lék hinn illa innrætta lækni Bartolo og átti að mér skilst stóran þátt í leikgerðinni.

Það var gaman að bera þetta saman við Sirkussýninguna og sjá hvað var líkt og hvað ólíkt. (A.m.k. við þann hluta Sirkussýningarinnar sem ég sá, af tæknilegum orsökum hef ég aldrei séð hana í heild sinni).

Talaður texti er hafður alveg í lágmarki og í upphafi virtist eins og til stæði að ryðja honum frá sér eins hratt og mögulegt væri, því leikararnir (söngvararnir?) töluðu ógurlega hratt og eiginlega óskiljanlega fyrir vikið. Það stafar örugglega af sviðsskrekk og batnaði stórum þegar leið á stykkið. (Been there, done that).

Þessi örknappi texti varð skemmtilega absúrd þegar atburðarrásin tók hverja vinkilbeygjuna á eftir annarri í örfáum setningum. "Nú, þú ert þá kannski launsonur þeirra tveggja!"

Söngur var af örlítið hærri standard en í Sirkus, enda kannski ekki við öðru að búast. Aftur er ég enginn söngfræðingur, en mér fannst allir standa sig mjög vel og ekki gat ég heyrt neinn byrjendabrag á söngnum. Leikmyndin var skemmtilega mínimalísk og skilaði sínu. Skemmtilegast fannst mér eiginlega hvernig píanóleikarinn var notaður, eiginlega sem hluti af leikmyndinni...

Svo er náttúrulega ómissandi að hafa einn fullan á sviðinu. Kannski vantaði meiri ölvun í Sirkus, ég veit ekki... Skál!

Ágæt kvöldstund, þótt ég efist um að þessi sýning ein og sér valdi því að ég gerist fastagestur á óperum. En maður á aldrei að segja aldrei...

Í gærkvöldi skrifaði ég svo einþáttung sem hefur verið að gerjast í kollinum á mér undanfarið og er að hluta til byggður á stórvirkinu Vel klæddur maður. Aldrei þessu vant ætla ég ekki að skella verkinu á vefinn strax, enda er ég nú kominn í þá stöðu að það er jafnvel kannski hugsanlegur möguleiki að það komist á svið og þá vil ég ekki vera búinn að spilla fyrir væntanlegum áhorfendum :) Stykkið hefur verið borið undir dómnefnd og fyrstu viðbragða vonandi að vænta fljótlega.

Hér fylgir þó textabrot úr verkinu:

Bjólfur:
En þú, hvað gerir þú svo?
Cecilía:
Ég? Ég er málsvari myrkrahöfðingjans.
Bjólfur:
Ha?
Cecilía:
Málsvari myrkrahöfðingjans. Umboðsmaður djöfulsins. Þú veist, djöfulsins, andskotans ... myrkrahöfðinginn, Lúsífer, Satan, freistarinn... kölski sjálfur...
Angantýr:
Bíddu, ertu þá í einhverskonar rökræðuklúbbi?

Þetta var myndbrot úr lífi menningarvita í Vesturbænum...


< Fyrri færsla:
Alltaf í fjölmiðlunum
Næsta færsla: >
Helgin á handahlaupum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry