Helgin á handahlaupum

Þá er enn ein helgin að fjara út. Sitthvað sem hefur gerst en þó fátt stórvægilegt. Á laugardagskvöldið fékk ég þó símtal þar sem mér var boðið hlutverk í einþáttungi sem ég stefni að því að þiggja. Það verður þá fyrsta hlutverk mitt með Hugleik þar sem ég fæ að segja eitthvað (og hvílík upphafssetning!)

Á föstudaginn tók ég ákveðið skref í átt að töluverðum breytingum á mínum högum. Stefni að því að gera nánar grein fyrir því hér síðar. Eftir vinnu kíkti ég svo til Margrétar systur sem var að passa Vilborgu. Foreldrar hennar komu skömmu síðar og allir snæddu lasagna hjá húsmóðurinni. Eftir að hafnarfjarðarfamilían var farin misnotaði ég tungumálakunnáttu litlu systur og við horfðum síðan á ræmu saman.

Á laugardag var bröns hjá Gísla og Gretu. Heilmikið fjör og ungviðið í aðalhlutverki (þótt reyndar hafi verið von á jafnvel fleiri eintökum af lágvaxnari gerðinni). Þegar heim kom skrifaði ég bréf í tengslum við leyndarmálið stóra og sendi til yfirlestrar.

Um kvöldið fékk ég símtal það sem áður var getið og það stefnir sem sé í að ég skríði á svið í nýjum einþáttungi (sem ég hef reyndar lesið og minnir endilega að sé í tveimur þáttum - og hlýtur því að teljast tvíþáttungur?) Eftir því sem mér skilst er stefnan tekin á leikför um landið (eða a.m.k. út fyrir höfuðborgarsvæðið).

Svo var afmælispartí hjá Skúla frænda. Hlustaði þar á innblásna einræðu um kosti flash og "skip-intro" (andvarp). Ég var dræver og kíkti aðeins í bæinn í framhaldi af því. Það kom vel til greina að fá sér öllara og skilja bílinn eftir, en fátíðni kunnuglegra andlita varð til þess að ég ákvað bara að drífa mig heim um tvöleytið án öls (en með bíl).

Fyrsta afrek dagsins í dag (sun.) var að fara út að hlaupa stuttan hring, ekki gerðist það sérlega snemma né var sérlega langt hlaupið né sérlega rösklega - en þó hlaupið. Lungun börmuðu sér yfir köldu lopti en hlaupi lauk án vandkvæða.

Eftir morgun/hádegis/kaffi(?) - mat sló ég rammagninu á íbúðinni út og lagðist með hausinn inn í skáp undir sjónvarpinu og undir skrifborðið (þó ekki samtímis - enda í sitthvoru herberginu). Þar voru tvær innstungur sem tekið hafa upp á því að harðneita að láta frá sér straum. Mér (og eflaust lesendum einnig) til mikillar gleði lifði ég þær tilfæringar af og fann lausa vírinn sem sló tvær flugur í einu höggi og veitti fjörinu aftur í stungurnar.

Uppveðraður af velgenginni réðst ég á ljósarofadós (eða hvað sem þetta nú kallast) sem ég hafði gengið hálfklúðurslega frá þegar ég flutti inn og aldrei lagað almennilega - fyrr en nú!

Hins vegar varð ég að játa mig sigraðan í baráttunni við að ná betri loftnetsskilyrðum í útvarpinu í stofunni - en þótt ég hafi tapað orustunni er stríðinu hvergi nærri lokið...

Meðal annarra afreka dagsins má nefna að ég hef:

  • þvegið eina vél
  • ráðist á niðurfallið úr baðkarinu með ofnahreinsi að vopni(!)
  • lesið svolítið
  • moppað (mjög lauslega) yfir íbúðina
  • lesið svolítið meira
  • ákveðið að hafa allt efni á nýrri útgáfu thorarinn.com í gagnagrunni
  • ákveðið að skammast mín ekkert fyrir nördaskapinn sem felst í síðasta punkti
  • horft of mikið á sjónvarp
  • steikt núðlur með grænmeti, soja, chili og karrí (tókst helv. vel)
  • verið mun latari en þessi upptalning gefur til kynna

Jamms, that's it for now...


< Fyrri færsla:
Menningarviti í burðarliðnum?
Næsta færsla: >
Svefnafrek og málfarsverðlaun
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry