Svefnafrek og málfarsverðlaun

Eitt af því sem ég hef öfundað pabba minn af í gegnum tíðina er hæfileiki hans til að geta lagt sig næstum hvar sem er, ákveðið að sofa í x mínútur og vakna glaðbeittur að þeim tíma liðnum. Þessi hæfileiki hefur nýst honum vel enda oft sem hann er svefnþurfi vegna læknisvitjana eða útkalla um nætur.

Ég hef ekki getað þetta hingað til, en finnst samt afskaplega gott að geta stundum dormað í ca. hálftíma þegar ég kem heim úr vinnu. Reyndar er ég þá yfirleitt lengi kvölds að hrista almennilega af mér svefndrungann.

Í gærkvöldi bar hins vegar svo við að ég lá uppi í sófa við lestur þegar syfja helltist yfir mig. Ég ákvað af einhverri rælni að prófa hvort ég gæti sofnað í 10 mínútur að hætti pabba gamla.

Ég náði að sofna mjög fljótlega, slokknaði alveg á mér, og það skeikaði síðan ekki mínútu að ég vaknaði samkvæmt áætlun 10 mínútum seinna sprækur og hress. Að vísu var ég 2-3 mínútur að koma mér alveg í gang aftur eftir að ég stóð upp, en fann ekki fyrir því að ég væri neitt eftir mig eftir þennan örlúr og var glaðvakandi fram eftir kvöldi.

Þessi hæfileiki er nokkuð sem ég vil gjarnan eiga í mínu vopnabúri og mun því leggjast í æfingar næstu daga og vikur (í þessu samhengi er orðið "leggjast" notað í bókstaflegri merkingu).

Verandi konungur langlokanna er ég eflaust að kasta steinum úr glerhúsi, en ég tilnefni umboðsmann Alþingis til málfarsverðlauna vikunnar fyrir glæsilega beitingu stílvopna og knappt, skýrt og skilvirkt mál:

Umboðsmaður tók fram að þótt ganga yrði út frá því að reglur stjórnsýslulaga gildi um undirbúning og úrlausn mála við skipun í embætti hæstaréttardómara auk þeirra óskráðu grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins sem taldar væru gilda um veitingu á opinberum störfum, þ.m.t. um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda, þyrfti jafnframt að taka afstöðu til þess hvort og þá í hvaða mæli reglur stjórnarskrár og laga um stöðu Hæstaréttar og dómenda þar leiði til þess að gera verði eftir atvikum sérstakar kröfur til undirbúnings og meðferðar ráðherra á valdi hans við skipun í embætti hæstaréttardómara.

Hvað skyldu vera margar setningar í þessari málsgrein? Hvað skyldu margir halda þræði við fyrsta yfirlestur? Ekki ég.

(Þessa stílsnilld fann ég gegnum mbl.is, hér er álitsgerðin í heild sinni fyrir þá sem hafa ríka sjálfspíslarhvöt.)

Ekki verða eftir atvikum höfð fleiri orð um þetta sérstaka tilvik né annað það er málið kann að varða og taka þyrfti afstöðu til.


< Fyrri færsla:
Helgin á handahlaupum
Næsta færsla: >
Vísað í kross
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry