Vísað í kross
07. maí 2004 | 0 aths.
Ég var að renna yfir aðsóknartölur aprílmánaðar og kem eflaust til með að tína til nokkur áhugaverð atriði úr þeirri yfirferð þegar ég gef mér tíma til. Eitt af því sem hægt er að lesa úr tölunum er hvaða vefir hafa vísað á mig, þ.e. hversu margir hafa fylgt tengli á öðrum vefsvæðum til að komast hingað.
Tenglasöfn hafa verið hluti veraldarvefsins frá fyrsta degi, menn söfnuðu saman tenglum á áhugaverða vefi og settu upp "tenglarnir mínir" eða álíka. Bæði til að miðla þeim til annarra og ekki síður að eiga sem bookmarks fyrir sjálfa sig. Sjálfur var ég með svoleiðis síðu á árdögum vefsins þegar íslenskar vefsíður voru teljandi á fingrum fáeinna háskólanema.
Algengasta útgáfa tenglasafna í dag er líklega hinn "lögboðni" tenglalisti á bloggsíðum þar sem bloggarar vísa hver á annann. Ég hef meðvitað látið slíkt eiga sig (a.m.k. hingað til) í þessari birtingarmynd vefsins, en aðsókn til mín nýtur auðvitað góðs af því að ég birtist í nokkrum slíkum listum hjá vinum og kunningjum.
Hér fara á eftir þeir íslensku vefir sem mest vísuðu á mig í aprílmánuði (sleppi öllum vísunum frá leitarvélum - meira um þær síðar - og mjög dularfullum 112 tilvísunum frá pantanaeyðublaði fyrir klassíska tónlist). Segja má að þetta sé mín viðleitni til að vísa til baka á þá sem vísað hafa á mig, gagnkvæm stafræn bak-klóra ef svo má sega. (Og auðvitað má ég segja það - hér má minns næstum allt!)
- 75: Sigga Lára
- 63: Toggi
- 56: Ásta
- 49: Sigmar
- 20: Edda
- 17: Jón Heiðar
- 07: Már
- 04: Hugleikur
Annars spái ég því að Bloglines og fleiri slíkar RSS þjónustur eigi eftir að breyta því töluvert á næstu misserum hvernig menn koma sínum leslista á framfæri. Ég vona samt að RSS tískubylgjan sem er að hellast yfir verði einkum í formi miðlægra þjónusta (eins og Bloglines), frekar en að allir fari að sækja sér RSS lesara, setja upp á sínum tölvum og láta skanna ótal vefi í gríð og erg með tilheyrandi óþarfa álagi á netið og vefþjóna.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry