Gasprað um kleinur

Einhverntíman verður víst allt fyrst (og sumt síðast) og nú ætla ég að spreyta mig á því að skrifa leiklistarumfjöllun. Ekki ætla ég nú að vera svo kræfur að kalla þetta leiklistargagnrýni, en umfjöllun skal króginn kallast.

Ég fór sum sé síðastliðinn föstudag á frumsýningu leikverksins "Kleinur" sem Hugleikur sýnir á örfáum sýningum í Kaffileikhúsinu um þessar mundir. Og til að gera langa sögu stutta skemmti ég mér konunglega og mæli eindregið með þessari sýningu.

Hins vegar er ég þekktur fyrir allt annað en stuttar sögur og mun því leitast við að endurtaka það sem sagði í síðustu setningu í löngu og ítarlegu máli. Þess má til gamans geta að þetta er fyrsta uppfærsla Hugleiks sem ég sé, þrátt fyrir að hafa tekið þátt í einni (sem ég hef náttúrulega aldrei séð).

Kleinur er leikverk sem annað hvort má líta á sem leikrit í fimm þáttum eða sem fimm einþáttunga sem eiga sameiginlega aðalpersónuna, Sigga, að ógleymdri ást hans á kleinum.

Þættirnir raðast upp í öfuga röð, í þeim fyrsta er Siggi fjörgamall og nýlega orðinn ekkill. Annar þáttur gerist þremur árum fyrr, sá þriðji 20 árum á undan öðrum og svo koll af kolli. Þetta kemur mjög skemmtilega út og mikið um sniðugar tengingar milli æviskeiða, t.d. kemur í ljós í síðasta þættinum hver ástæðan er fyrir kleinuástríðu Sigga og kattafælni.

Mér skilst að dr. Tóta (Þórunn Guðmundsdóttir í þjóðskrá) hafi upphaflega samið fyrsta þáttinn sem stakan einþáttung og síðan prjónað hina við. Í þessum fyrsta þætti er Siggi (leikinn af Sævari Sigurgeirssyni) gamall tuðandi karlfauskur sem fær konu í heimsókn (leikna af Hrefnu Friðriksdóttur) og segir henni frá Gunnu, eiginkonu sinni sem þá er nýdáin. Þau léku sín hlutverk með miklum sóma og gömlukallataktar Sævars vöktu mikla lukku.

Reyndar fannst mér þessi þáttur einna sístur af þeim fimm, framvindan var fyrirsjáanleg og áhorfendur fljótir að átta sig á því í hvaða erindagjörðum unga konan er mætt á heimilið, hins vegar er morbid húmorinn og mér liggur við að segja splatter-stemmningin sem skyndilega skýtur upp kollinum hressandi frávik frá klisjunni sem ég far farinn að halda að stefndi í.

Í öðrum þætti birtist Gunna, eiginkona Sigga. Hún er leikin af Huldu Hákonardóttur sem birtist þarna í jafnvel kynbombulegra gerfi heldur en í Sirkus. Í stuttu máli var samleikur þeirra "hjóna" alveg frábær og drepfyndinn. Ólíkt fyrsta þættinum kemur misskilningur ekki við sögu hér, en kannski frekar sameiginlegur rangur skilningur þeirra hjóna á því hvað er viðeigandi og hvað ekki. Inn í það blandast sárasaklaus (nýútskrifaður?) þjóðháttafræðingur leikinn af Erlu Dóru Vogler. Hún stóð sig vel, en hlutverkið býður ekki upp á mikil tilþrif önnur en ólíkar útgáfur af undrunar- og hneykslissvip yfir atferli þeirra hjóna.

Þriðji þáttur snýst um samskipti Sigga við Jónas félaga sinn, þar sem mikið gengur á og framvindan á köflum rafmögnuð. Jónas lék Sigurður Atlason og var bráðskemmtilegur. Hann spilaði flott á sinn karakter og mér fannst óborganlegt hvernig svitinn spratt fram á enninu á honum á hárréttum stað í verkinu. (Ég veit ekki um marga atvinnuleikara sem geta svitnað on cue!).

Fjórði þáttur segir frá fyrstu kynnum þeirra hjóna og þar toppaði leikritið í samleik Sævars og Huldu. Bloody brillant, eins og segir í Hávamálum. Öll svipbrigði og látbragð voru greinilega útpæld og óborganlegt að fylgjast með þeim gjóa augum hvort á annað yfir mjólkurglösunum.

Í fimmta þætti er veitt innsýn í æsku Sigga og þar leikur Fríða Bonnie Andersen lítið (en áhrifaríkt) hlutverk nöfnu sinnar Fríðu Siggu Bö. Aðdáun hennar á Sigga skein úr andlitinu og flott að sjá hvað hún gerði mikið úr litlu. Ömmu Sigga lék Jónína Björgvinsdóttir og var alger drauma-amma, hlý og traust. Í þessum þætti klóraði ég mér reyndar aðeins í kollinum yfir aldri Sigga sem í upphafi hans virðist kominn vel á táningsaldur en verður svo tólf ára þegar líður á. Hins vegar verð ég að hrósa Sævari fyrir að vera mjög sannfærandi smágutti.

Rússínan í pylsuendanum (eða kúrenan í kleinuendanum) er svo örstutt sena sem sýnir þegar Siggi kemur í heiminn, hún smellpassar við það sem á undan er gengið og hnýtti skemmtilegan lokahnút á verkið.

Um leikstjórn Togga (Þorgeirs Tryggvasonar) hef ég ekkert nema gott að segja (enda held ég að maður eigi ekki að taka eftir góðri leikstjórn) - það var greinilegt að búið var að pæla í alls konar töktum og uppstillingum, eflaust í samspili leikstjóra og leikara og mér fannst það allt ganga skemmtilega upp. Ljósin voru einföld, en ekki öfunda ég Valdimar ljósameistara af því að stýra þeim án þess að sjá á sviðið.

Kleinur eru settar upp í Kaffileikhúsinu sem hefur sína kosti og galla. Ég var ekki lágvaxnasti maðurinn á sýningunni, en þurfti samt að teygja mig og reygja til að sjá hvað fram færi þegar persónurnar sátu. Hins vegar myndaðist mjög skemmtileg og heimilisleg stemmning og það var mikið hlegið.

Svo ég súmmeri þetta aftur upp; mjög skemmtilegt, allir stóðu sig mjög vel og Sævar bestur meðal jafningja. Eindregin meðmæli af minni hálfu.

Þegar þetta er skrifað er bara ein sýning eftir og ég mæli eindregið með kvöldstund í Kaffileikhúsinu næsta sunnudagskvöld, 16. maí.

Uppfært: Ég gleymdi að nefna að mér flaug það í hug meðan á sýningunni stóð að það væri upplagt að flytja einfalda sviðsmyndina upp í sjónvarpsstúdíó og taka Kleinurnar upp til að sýna í sjónvarpi. Ég held þær ættu fullt erindi þangað.


< Fyrri færsla:
Vísað í kross
Næsta færsla: >
Sendi bréf til útlands
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry