Sem hengdur á þráð (eður þræði)

Þá er eina vinnudegi þessarar viku lokið og á morgun verður lagt í leikför. Stefnan tekin á einþáttungahátíð í Svarfaðardal á vegum Bandalags íslenskra leikfélaga, sýndur verður einþáttungurinn Listin að lifa þar sem ég leik kúkalabbann Dúdda; vælukjóa, drykkjuhrút og auðnuleysingja. Verkið sem er eftir alþjóðlega viðurkennt leikskáld dregur upp svipmyndir af samskiptum Didda við konurnar í lífi sínu og varpar ljósi á það hvernig ákveðin atvik í æsku hans móta að öllum líkindum alla hans tilveru uns yfir líkur. (Eða þannig sko...)

Kannski er rétt að taka fram að einþáttungurinn heitir bara "Listin að lifa", ekki "Listin að lifa þar sem ég leik kúkalabbann Dúdda". Þó get ég alveg trúað höfundinum til að skrifa þann leikþátt einhvern tíman síðar...

Stuðmenn voru um árið gripnir brjálæðishrifningu og buðu Tópas út um allar grundir. Leikhópur einþáttungsins var gripinn annars konar brjálæði á fyrsta samlestri og í stað þess að draga fram ljóðræna fegurðina í texta skáldverksins með einfaldri og látlausri uppsetningu var ákveðið að bregða á tækniflipp og setja upp loftfimleikasýningu sem með góðum vilja mætti fullyrða að fara muni langt með að jafnast á við Rómeó og Júlíu Vesturports, a.m.k. meðan þau skötuhjú voru mjög ung. (Eða þannig sko...)

Hefur nú eðaæði læst klónum í dagbókarskrifara sem sér ljóðrænt mynstur verða til í endingum málsgreina þar sem eðindleg stef kallast á í sífellu. (Eða þannig sko...)

Allavegana. Deila má um hvort þetta tæknifetish hópsins hafi verið skynsamlegt í ljósi þess að tími til stefnu var skammur og ljóst að nokkuð yrði um fjarvistir leikara. En mér skilst það sé ekki mjög Hugleikst að hafa of miklar áhyggjur af slíkum smámunum...

Í gær var svo fyrsta alvöru græjuæfing (og um leið síðasta æfing sunnan heiðfjalla). Ég veit ekki af hverju mér flugu gálgar í hug við þá sjón sem við mér blasti:

Jón smiður að skrúfa upp bitann

Þarna var sem sé risinn rammi mikill, rammlega boltaður í þakbita og stoðum studdur, á hvern við skyldum hengd sem jólaskraut eður óróar. Gálgatilfinningin minnkaði ekkert við það að standa skjálfandi á beinum uppi á veigalitlum eldhúskolli og rembast við að tengjast græjunni - áður en kollinum var spyrnt undan mér og stórleikarinn látinn dingla um stund í lausu lopti.

Ótækt þykir að nefna snöru í hengds manns húsi og jafnframt skyldi enginn gantast með hughrifin sem ungar sálir kunna verða fyrir af því að hafa alist upp við leik á og undir Gálgakletti nokkrum þar sem síðasta aftaka með hengingu fór fram á Íslandi.

En þá að allt öðru, í bili að minnsta kosti. (Eða þannig sko...)

Nú er ég að verða kominn með viku í kvefi. Reyndar aðgerðalitlu kvefi sem ekki hefur valdið nægilegum krankleikum til að rúmfesta mig - en hefur þó dugað til nokkurs dugleysis, þrekleysis og fylgjandi sérhlífni þar sem ég hef ekki mátt við því að fara að leggjast í einhverjar pestir núna. Frekar að gera eins og sönnum opinberum starfsmanni sæmir og geyma slíkt þar til ég kemst í alvöru frí.

Ég hef oft á mínum skólaferli fengið ákúrur fyrir þessi sko mín, en ég læt það sko ekkert hindra mig. Ó nei, ekki ég sko.

Þegar hér er komið sögu er rétt að taka fram að dagbókarskrifari er með öllu laus við innbyrðingu áfengis og ekki er hægt að skýra þvaðr þetta með annarlegri líðan annarri. Reyndar olli ritun þessarar síðustu setningar ákveðnum þorsta, en mót honum skal spyrnt, a.m.k. um sinn.

Ástæða þess að dagbókarskrifari (hvað er þetta með þriðju persónuna?) (er maðurinn alveg að sleppa sér?) hefur aðeins unnið einn heilan vinnudag í þessari viku felst í því að hann var í Landssveit að nema fræði markaðssetninga og samskipta við fjölmiðla ásamt fleirum úr borgarkerfinu. Var það hin skemmtilegasta ferð og að mörgu leyti fróðleg. Hins vegar fann ég það þegar ég skaust í vinnuna þegar heim var komið eftir hádegið í gær að líklega hef ég hvílst heldur minna en ég kannski hefði þurft. Hafði ég þó haft hægt um mig og fór snemma í rúmið, einn í mínu sexmannaherbergi.

Ekki vil ég draga upp þá mynd af fræðsluför þessari að um um einhverja svolaferð hafi verið að ræða, en stenst þó ekki mátið að vitna í ónafngreindan borgarstarfsmann sem mælti um miðnæturbil: "Á morgun þarf ég að sitja fund í borgarráði og borgarstjórn í beit. Ég er ekki viss um að ég meiki það nema timbraður!" Rétt er að geta þess að ekki var annað að sjá en viðkomandi ónafngreindur borgarstarfsmaður hafi vaknað glaður og hress og hefur því líklega þurft að þrauka fundina ótimbraður.

Sömu daga stóð yfir evrópsk samgönguráðstefna í Ráðhúsinu sem ég hafði unnið við að skipuleggja, ég veit ekki annað en hún hafi tekist stórslysalaust - þrátt fyrir mína fjarveru, eða kannski vegna hennar?

Allavegana...

Í gær var svo gálgaæfingin fræga sem stóð nokkuð fram yfir miðnættið og þegar heim var komið var ég of upprifinn til að fara strax að sofa. Skynsamlegast hefði því verið ef dagbókarskrifari lægi nú undir sæng í stað þess að þrjóskast við í þessu tauti.

Að lokum, mynd af mér spenntum í græjunni. Ritstjórn hefur með atkvæðum meirihlutans ákveðið að myndir af leikhópnum í fullum skrúða verði ekki birtar fyrr en að frumsýningu lokinni.

Minns hangandi í bleyjunni

Á morgun verður svo [ég hef líka verið skammaður fyrir svoin] brunað norður, gert út frá Akureyrinni og reynt að hitta sem flesta vini og kunningja. En nú dregur skoskammaður róludrengur sig til hlés og hysjar upp um sig.

Að lokum eru hér nokkur bandstrik sem nota má eftir hentugleikum til að skipta upp samsettum orðskrípum á borð við "skoskömm" í texta þessum og gera þannig örlítið skiljanlegri: - - - - - - - (Notist eftir þörfum.)


< Fyrri færsla:
Nýjar myndir af Vilborgu
Næsta færsla: >
Stórleiks-för um Norðurland
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry