Brotið blað

Í dag sagði ég upp starfinu mínu.

Segja má að síðan ég ákvað að fara norður á Akureyri í menntaskóla hafi náms- og starfsferill minn einkennst af því að halda möguleikum opnum og passa að múra mig ekki inni eða brenna út.

Ég valdi náttúrufræðibraut í menntaskóla til að halda sem flestum möguleikum opnum.

Ég byrjaði í efnafræði vegna þess að þar var farið í öll grunnfög raungreinanna á fyrsta ári og lítið mál hefði verið að skipta um fag innan raun- og verkfræðideildanna (var þá búinn að afskrifa heilbrigðisgeirann). Svo tók sig upp þrjóska og ég ákvað að fyrst ég væri kominn þetta langt skyldi ég klára minn BS í efnafræði! enda var ekkert sérstakt fag annað sem höfðaði meira til mín. Hins vegar "sá ég aldrei ljósið" í efnafræðinni og það var því aldrei inni í myndinni að fara í framhaldsnám í henni.

Um þetta leyti var sú fluga komin í kollinn á mér að prófa að spreyta mig sem kennari eftir háskólann. Ég ákvað að gera það almennilega, taka kennsluréttindin og prófa svo að kenna í 2-3 ár meðan ég hugleiddi næstu skref. Kennsluréttindanáminu fylgdi líka sá kostur að maður fékk að spreyta sig sem nemi í félagsvísindadeild, "hinum megin" við Suðurgötuna.

Eftir tvö ár í kennslu í Kvennó var ég búinn að fá nóg af því að kljást við nemendur um það hver færi með valdið í kennslustundum og farnar að mótast hugmyndir um að fara í mastersnám til Englands í einhvers konar upplýsingatæknifræðum, með það í huga að samtvinna það við kennslufræðina og reyna að hasla mér völl í tölvubransanum.

Til þess að prófa hvort það ætti við mig að sitja fyrir framan tölvuskjá allan vinnudaginn ákvað ég að reyna að spreyta mig eins og eitt ár sem vefari (html-ari), enda var það eina markaðssetjanlega tölvukunnátta mín. Fyrir röð tilviljana endaði ég hjá fyrirtækinu Gæðamiðlun í þann mund sem netbólan var að stækka sem hraðast, um mitt árið 1999. Þar fór í hönd langskemmtilegasta tímabil minnar starfsævi og nokkuð sem ég hefði alls ekki viljað missa af.

Gæðamiðlun varð að Mekkanó og bólan sprakk. Mekkanó stóð á brauðfótum alla tíð og gamanið fjaraði smám saman út. Reynt var að bjarga því sem bjargað varð og til varð fyrirtækið Kveikir. Það fæddist með þungar byrðar og rúmu hálfu ári eftir stofnun fór það í gjaldþrot og minns varð atvinnulaus.

Fyrir rælni fékk ég svo starf upplýsinga- og þjónustufulltrúa hjá embætti borgarverkfræðings og er núna búinn að vera þar í 2,5 ár. Það var spennandi framan af, en undanfarið hef ég fundið að komin væri þörf á að breyta til.

Síðastliðið haust var ég á leið í stöðupróf fyrir MBA nám, en það fór eins og það fór og í framhaldi af því fékk ég bakþanka um það hvort MBA nám væri það sem hentaði mér best. Í heimsókninni til Kaupmannahafnar opnuðust augu mín fyrir því að þar gæti verið spennandi að fara í nám og eftirgrennslan leiddi mig að IT-Universitetet i København þar sem ég fann kandídatsnám (MSc) sem ég er spenntur fyrir og er búinn að sækja um inngöngu í haust. Svar við þeirri umsókn fæ ég um miðjan júní.

Gangi það ekki eftir mun ég bretta upp ermar og leita mér að annarri vinnu. Ég geri ráð fyrir að ljúka störfum hjá borginni um miðjan ágúst og kappkosta að skila af mér góðu búi til míns eftirmanns.

Það kómíska er að nú er ég að vissu leyti á svipuðum slóðum og eftir Kvennó, á leið í mastersnám í upplýsingatækni. Aðalmunurinn er auðvitað sá að nú hef ég unnið við fagið í nokkur ár og þekki mína styrkleika og veikleika, auk þess sem ég þykist vita hverju ég hef áhuga á innan fagsins og hverju ekki. (Og búinn að senda umsókn.)

Nú er því brotið blað í minni tilveru og það verður spennandi að sjá hvað fylgir í kjölfarið.


< Fyrri færsla:
Úrslitaleikur í svalameistaradeildinni
Næsta færsla: >
Leiðrétting
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry