Svalastripl í gær

Í blíðunni í gær var ómögulegt að hanga inni við, þannig að mér þótti upplagt að taka skurk í garðinum. En eins og glöggir lesendur vita þá á ég engan garð!

Þess í stað tók ég smá skorpu í að verka upp mesta rykið og draslið sem fokið hefur upp á svalirnar mínar í vetur. Mesta furða hversu mikið skilar sér hingað upp á þriðju hæð.

Eftir að hafa flett upp timburflekunum þar sem mest er af rykinu lagði ég til atlögu með nokkrum skúringarfötum af volgu vatni, strákústi, handsóp og uppþvottabursta (!). Verandi efnafræðimenntaður hef ég ítarlega þekkingu á alls kyns öflugum hreinsiefnum og byggt á þeirri reynslu minni beitti ég Fairy uppþvottalegi með sítrónuilmi í þrifum þessum.

Þar sem hitastigið lá nærri 20 gráðum í forsælunni kom að því að ég fletti mig klæðum og spriklaði um í snjáðum gallabuxum og ber að ofan. Það vantaði ekki nema hjólbarða í sitthvora hönd og nokkur pund af bringupróteinum til að ég væri alveg eins og gæjarnir í gallabuxnaauglýsingunum hérna um árið.

Ég verð að hryggja aðdáendur mína með því að engar myndir voru teknar af þessum gjörningi.

Eftir sturtu og afkroppun af lærbeininu góða umskrifaði ég einþáttung einn ógurlegan - og fer að verða ánægður með hann.

Í dag er svo ætlunin að þrífa rúðurnar með sama uppþvottaleginum.


< Fyrri færsla:
Grill ´em all!
Næsta færsla: >
Ekki orð um fjölmiðlafrumvarpið
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry