Nýyrði: heilatregða

Google rennir stoðum undir að orðið heilatregða sé nýyrði. Það lýsir hins vegar mjög vel afköstum mínum það sem af er degi. (Af tillitssemi við viðkvæma lesendur læt ég ógert að benda á greinileg tengsl við meltingartengt hugtak).

Í tregðunni rifjast þó upp fyrir mér annað nýyrði sem ég bjó til fyrir nokkrum misserum í tengslum við merka grein sem ég skrifaði um vírusa, eldveggi og njósnaforrit, en hefur ekki enn verið birt (sem er engum að kenna nema sjálfum mér).

Umrætt nýyrði er hnýsill notað yfir SpyWare, sem eins og glöggir menn vita eru lítil forrit sem lifa sníkjulífi á tölvum og njósna um atferli notenda (með tilheyrandi ónæði og óstöðugleika (tölvukerfa jafnt sem mannlegra fórnarlamba)).

Hnýsill er samstofna sögninni að hnýsast og vísar um leið til sníkjulífs hnýsilsins (sbr. samband sníkils og hýsils) (sem allir lærðu um í líffræði og kunna enn).

Google finnur reyndar "hnýsill" sem nafn á íslenskum hestum í Þýskalandi, en það breytir engu um kröfu mína til nýyrðatitilsins.


< Fyrri færsla:
Ekki orð um fjölmiðlafrumvarpið
Næsta færsla: >
Myndatexta vantar...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry