Prýðileg ferð í sveitina

Helgin var bráðskemmtileg, en kannski helst til stutt. Við frændur brunuðum austur um hádegið á föstudegi og vorum komnir á Egilsstaði um áttaleytið. Eftir stutt stopp og baunarétt fórum við út í sumarbústað þar sem ungliðahreyfingin réði ríkjum. Þar var keppt í fótbolta og Pictionary fram eftir nóttu.

Laugardagurinn hófst svo á sundlaugarferð (reyndar eftir tafir við vanmáttuga baráttu við þrjóskan prentara). Síðan var opnuð sýning tileinkuð afa í Safnahúsinu og kl. 2 byrjaði aðalsamkoman. Ég hef átt fjörugri stundir í Valaskjálf, en þetta var alveg ágætt.

Um kvöldið borðaði svo allt slektið saman á Hótel Héraði og eftir matinn fórum við í ungliðahreyfingunni aftur út í bústað. Þar var spilaður meiri fótbolti og síðan Axjónerí fram til klukkan 2. Það axjónerí fólst aðallega í því að skipt var í tvö lið og látbragðast þar til annað liðið (eða bæði) fór að öskra og þóttist búið að ráða gátuna. Yfirleitt voru liðin mjög ósammála um það hvort hefði öskrað fyrr, en það var leyst með salómónsdómum eftir því sem við átti hverju sinni.

Þess má til gamans geta að af beinum afkomendum afa og ömmu vantaði bara 5 og þau voru öll löglega forfölluð erlendis. Það kalla ég bara góðar heimtur.

Það var örlítið vansvefta lið sem reif sig upp klukkan átta á sunnudagsmorgni eftir rúmlega fimm tíma svefn, til að taka til í bústaðnum og fara inn í Egilsstaði til þess að hefja gróðursetningu í Þórarinslundi inn af Hallormsstað. Það tókst að halda tímaáætlun og í lundinum var potað niður 100 plöntum í alveg glimrandi veðri.

Eftir kaffi og myndatökusessjón var svo lagt í hann aftur suður. Við frændur héldum áfram hópinn í Hondunni góðu. Eftir einn Backgammon leik í aftursætinu fórum við í hinn háþróaða leik "hver er maðurinn" þegar Öxi tók við, enda vonlaust að hafa hemil á töflunum á þeim vegi.

Backgammon í aftursætinu

Það er skemmst frá því að segja að sá merki spurningaleikur entist okkur í maaargar klukkustundir og stytti okkur hressilega stundir. Fram komu ýmsir merkilegir karakterar, ss. Jack Ruby, Dodi Al Fayed, Hugh Hefner, Jesú Kristur, Hannibal, Kio Briggs og óendanleg dobía af stórleikurum á borð við Chuck Norris, Eric Roberts, Mark Hamill og þaðan af ófrægari menn.

Tekin var hámborgarapása á Höfn, kaffihlé á Klaustri og hending rusls á Hellu (sérstaklega passað upp á stuðlunina). Ég ók svo milli Klausturs og Selfoss meðan fyrsti bílstjóri fékk sér kríu í framsætinu og fór svo aftur í til að niðurlægja frænda sinn í Backgammon. Var ferðin tíðindalítil utan eins atviks þar sem augnabliks dómgreindarleysi af minni hálfu hefði hugsanlega getað skellt okkur framan á flutningabíl á þokkalegri ferð. Úr því varð þó ekki annað en örlítill hjartsláttur.

Í bæinn vorum við komnir rúmlega átta og maður fór snemma í rúmið...

Úrslit í verðlaunasamkeppninni væntanleg á morgun!


< Fyrri færsla:
Myndatexta vantar...
Næsta færsla: >
Vinur minn Google!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry