Kafinn önnum

Eitthvað hafði ég haft um það orð að myndir og annað efni frá Svarfaðardalsdögum væri væntanlegt hingað á vefinn um miðja viku. Enn bólar ekkert á slíku, enda hef ég lítið verið heima eftir vinnu undanfarna daga (og þegar ég kem heim reyni ég að fara snemma að sofa). Hádegishléin í vinnunni hafa undanfarið verið tekin í að sóla sig á svölunum, en nú þegar er skýjað gefst færi á að hripa eitthvað niður.

Ég stefni að því að setja niður einhverjar textalegar glefsur frá leikskólastússsi liðinnar viku, eflaust í nokkrum skömmtum og í litlu samhengi, lítt skiljanlegar öðrum en þeim sem þarna voru. Svo er ég með á þriðja hundrað ljósmynda úr Svarfaðardalnum sem ég þarf að finna farveg (a.m.k. til bráðabirgða áður en ég forrita eitthvað varanlegra).

Þess fyrir utan eru rétt tæplega þúsund smáverkefni í gangi í vinnunni (og nokkur stór).

Þá má ekki gleyma þessu smámáli með háskóladvöl mína næstu vetur, ég þarf að faxa staðfestingu á skólavistinni út, byrja að sleikja upp LÍN, vona það besta með húsnæðisumsóknir mínar erlendis, huga að því að leigja út íbúðina og selja bílinn, auk allra hinna smáatriðanna sem eftir er að leysa.

Í ljósi þess hvað ég hef mikinn frítíma er ég líka búinn að taka að mér smá vefverkefni - ætli ég reyni ekki að taka eins og einn sumarfrísdag í að græja það (helst þegar rignir). Vér verðandi fátækir námsmenn þiggjum alla aura sem nálgast seilingarfæri vort.

Einnig má þess til gamans geta að í dag varð ég thorarinn (hjá) gmail.com - aðallega til að tryggja mér netfangið, það á eftir að koma í ljós hvort ég nota það eitthvað.

Svo þarf ég að passa mig að missa ekki af sumrinu - annað eins hefur nú gerst.

En fyrst á dagskránni eru Deep Purple annað kvöld (í einhverjum ógurlegum über-VIP sætum).


< Fyrri færsla:
Kominn heim
Næsta færsla: >
204 er töfratalan
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry