204 er töfratalan

Ég tók eitthvað um 220 myndir á Húsabakka, eftir að hafa farið í gegnum þær allar og hent þeim út sem voru hreyfðar um of eða svo undirlýstar að ekki tók því að reyna að bjarga þeim, standa 204 eftir.

Í gærkvöldi fór ég snögga yfirferð yfir þessar 204 myndir, lagaði liti og birtu hér og þar og útbjó 4 myndasöfn sem eru aðgengileg undir /photos/husabakki2004. Þar er bæði hefðbundið myndasafn sem hægt er að smella sig í gegnum og ZIP skrár með frummyndunum.

Mér finnst í raun mesta furða hversu margar af þessum myndum eru vel heppnaðar, því flestar eru skotnar "í blindni" og við misgóð birtuskilyrði.

Þessar myndir gefa alls ekki heildarmynd af vikunni, enda var ég sjaldnast með myndavélina á mér (en tók þeim mun fleiri þegar þannig bar við.) Einnig birtast sumir oftar en aðrir á þessum myndum - þeim var líka nær að vera að þvælast svona fyrir framan linsuna!

Það er á langtímadagskránni að útbúa (forrita) ljósmynda-umsýslu á thorarinn.com, en þessi framsetning er huxuð til bráðabirgða. Ekki er því hægt að treysta á að vísanir á einstakar myndir eða undirsíður haldist óbreyttar um aldur og ævi.

Þetta er líka snilldarleið til að hækka aðsóknartölur júní mánaðar, innan nokkurra daga ætti mér að takast að fá alla nemendur skólans og aðra áhugasama til að fletta í gegnum söfnin og setja nýtt aðsóknarmet :)

Annað trix er líka að hafa handahófsauglýsingu á forsíðunni og hvetja þannig lesendur til að endurhlaða síðuna og reyna að sjá allar útgáfur!

Dagbókarfrásagnir af þessum dögum gætu svo farið að birtast hér hvað úr hverju...


< Fyrri færsla:
Kafinn önnum
Næsta færsla: >
Glamrokk og gítarsóló í Höllinni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry