Glamrokk og gítarsóló í Höllinni

Fór á Deep Purple í gær. Það var ágæt skemmtun, þótt ekki geti ég sagst þekkja mikið af nýrri lögunum þeirra. Þeir eru hins vegar fantafínir mússíkantar, héldu uppi góðri keyrslu og virtust vera að fíla salinn. VIP stúka Flugleiða olli hins vegar vonbrigðum.

Eins og bent var á hefði verið réttara að kalla stúkuna "RIP rasskinnar", a.m.k. voru mínar kinnar mjög fegnar þegar allir í salnum stóðu upp til að syngja með í Smoke on the Water.

Finnur benti réttilega á að DP er eins konar "five-hit-wonder" og það var ekki fyrr en í blálokin að það komu lög sem allir þekktu, en þá náðist líka rífandi stemmning.

Aldurssamsetningin var mjög óvenjuleg, allt frá grunnskólaaldri og upp undir sjötugsaldurinn. Flottastir voru tveir guttar sem tæplega voru komnir á grunnskólaaldur og voru á háhesti allan tímann. Þeir rokkuðu mikið og virtust fíla sig vel.

Það var skondið að í öllum þessum fjölda þekkti maður varla kjaft (fyrir utan nokkur miðaldra selebretjí). Þarna var sem sé samankomið allt hitt fólkið!

Eflaust er ég að verða gamall, en á köflum hefði mér þótt allt í lagi að lækka hávaðann um svona eins og hálft prósent. A.m.k. var maður með syngjandi hellu þegar út var komið.

En heilt á litið, ágætis skemmtun.

Metallica næst.


< Fyrri færsla:
204 er töfratalan
Næsta færsla: >
Húsbekkískt runkminni og annar vitleysisgangur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry