Húsabakkaminningar - fyrsti þáttur

Hér verður gerð tilraun til að gefa nasaþefinn af dvölinni að Húsabakka í leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Eflaust gleymi ég ýmsu og fer frjálslega með annað, en þannig er það nú bara. Ég ætla að áfangaskipta verkefninu og mér sýnist að þetta verði að lokum fjórir kapítular, en lokatala á eftir að koma í ljós.

  1. Prologus (sögumaður ræskir sig)
  2. Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir
  3. Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif
  4. Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

Prologus (sögumaður ræskir sig)

Ég fór norður eftir vinnu 11. júní, með Sigurði og Birni M., Hugleikskum kollegum og leikfélögum í Sirkus. Allir vorum við að fara í skólann í fyrsta sinn, hver á sitt námskeiðið. Siggi var dræver enda vorum við á hans fjallajeppa. Ferðin norður var tíðindalítil í prýðilegu veðri (eftir því sem mig minnir). Minnugur síðustu bílferðar minnar laumaði ég fljótlega að stórleiknum "hver er maðurinn" og líkt og helgina áður entist þessi leikur okkur von úr viti og var hin besta skemmtun.

Við tókum það rólega á leiðinni, með góðu stoppi í Staðarskála og nutum þar húnvetnskra sérrétta. Á leiðarenda vorum við komnir rétt fyrir miðnættið og var tekið með kostum og kynjum af þeim sem þangað voru mættir. Okkur var skipað til fletis í skólastofu þar sem fyrir var Þröstur nokkur, sem bað okkur að kalla sig Bíbí og er þrátt fyrir nafnið enginn smáfugl, en gull af manni. Það lá í loftinu að kannski yrðum við fleiri þarna í skólastofunni, en svo fór að við vorum "bara" fjórir. Það var þröngt setinn (og leginn) bekkurinn í Húsabakkaskóla og líklega var einna rýmst um okkur af þeim sem þarna voru.

Þröstur gaukaði (þrastaði?) strax að okkur bjórum og maður heilsaði upp á þá sem voru á fótum, fylgdist með nýjum gestum renna í hlað og andaði að sér sumarnóttinni.

Fyrsta nóttin var afskaplega björt með sólskini inn um gardínulausa glugga, þannig að mestan hluta nætur lá ég með handklæði breitt yfir hausinn. Eins og stundum vill verða á nýjum stað svaf ég frekar laust og rumskaði tíðum.

Dæmigerður dagur að Húsabakka fólst í því að morgunmatur hófst kl. 8 og tíndust menn missnemma og af mismiklum hressleika í hann. Klukkan 9 voru stundaðar jógaæfingar úti á grasflöt og eftir þær hófust hóparnir handa. Dæmigerður dagur hjá okkur á grunnnámskeiðinu hófst á því að ganga upp í fjallshlíðina ofan við skólann (í þögn) og heilsa þar áttunum með til þess gerðum hneigingum, teygingum og grúfuköstum.

Ásta og lækur í fjalli
Ásta og lækur í fjalli

Eftir áttakveðjur var það svo okkar verkefni að stúdera umhverfið og/eða hvað annað sem okkur flaug í hug. Fyrsta daginn í fjallinu komst ég m.a. að því að það er auðveldara að leika stein heldur en blóm. Það er meira fjör að leika strá í vindi en krefst góðs jafnvægis. Einnig rifjaðist upp fyrir mér að það getur verið gaman að stökkva ofan af hárri þúfu - eins oft og mann lystir.

Steinn í fjalli (hluti)
Steinn í fjalli (hluti)

Eftir frjálsa flæðið voru yfirleitt gerðar einhverjar æfingar í fjallinu áður en aftur var gengið (í þögn) niður í skóla, þar sem við vorum með aðstöðu í kennslustofu sem ekki var sérlega stór (og hefur varla stækkað mikið síðan námskeiðinu lauk) (reyndar rifjast upp fyrir mér að eitthvað heyrði ég um að til stæði að brjóta niður veggi - þannig að kannski hefur hún stækkað þrátt fyrir allt) (læt upphaflega svigann samt standa) (flott að hafa marga sviga).

Það er ekki auðvelt að lýsa því í fáum orðum hvað við fengumst við á námskeiðinu, en ein útgáfa væri að segja að við höfum unnið með helstu grunnþætti leiklistar á mjög abstrakt hátt, með áherslu á að fylgjast með því hvað væri að gerast í kringum okkur og grípa hugmyndir á lofti. Við unnum líka mikið með röddina og ég held að mitt tónsvið hafi víkkað um eina áttund eða svo - bara við það að fylgjast með því hjá sjálfum mér hvar og hvernig hljóðin verða til.

Heilmikið var tekið á í æfingum og listrænum tilþrifum og þegar leið á námskeiðið tóku nemendur (og kennari) að tapa röddum og harðsperrur, marblettir og eymsl gerðu vart við sig. Nokkuð reglulega lukum við þó tímum á slökunar- og nuddæfingum sem gerðu kraftaverk fyrir lúna limi.

Kennt var fram að hádegi og þá tekin tveggja tíma pása, sem nýtt var til að skreppa á Dalvík (sundlaugin, kaupfélagið og ríkið voru vinælustu viðkomustaðirnir), læra texta, stunda óbeinar reykingar eða bara að leggja sig. Næst var stutt pása klukkan 4 og síðan kennt fram að kvöldmat sem var klukkan 6. Flest kvöldin var svo eitthvað prógramm sem oftast byrjaði um klukkan átta. Tímann þar á milli mátti svo nota í að læra texta, stunda óbeinar reykingar, leggja sig eða skreppa í sturtu og gufu (enda fátt að sækja á Dalvík eftir lokun ríkisins).

Frá kvöldspriklum verður sagt í næsta kafla.

  1. Prologus (sögumaður ræskir sig)
  2. Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir
  3. Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif
  4. Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

< Fyrri færsla:
Fussað yfir mbl.is
Næsta færsla: >
Heimsóknir, heimsókn, metall og fleira
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry