Skall hurð nærri skuldsettum hælum

Ég er ekki einn af þeim sem tékka daglega á stöðu bankareikninganna sinna, en álpaðist þó inn í netbankann minn núna í hádeginu. Komst þar að því að tékkareikningurinn var í bullandi mínus og ég átti 346 krónur eftir af yfirdráttarheimildinni minni. Það munaði því aðeins hársbreidd að ég stæði einhversstaðar álkulegur í verslun um helgina með synjun á kortið og reyndi að sannfæra saklausan afgreiðslumann um að víst ætti ég pening.

Rót vandans er sú að launin mín fara inn á annan reikning (með hærri vöxtum), en bankinn á sjálfkrafa að millifæra eyðsluaura inn á tékkareikninginn um hver mánaðarmót. Það hefur einhverra hluta vegna klikkað í byrjun júní og ég því smám saman verið að róta mér niður í mínus. Hins vegar átti ég nóg á launareikningnum og reddaði málunum - en tæpt stóð það.

Hringi í bankann eftir helgi og tékka á hvað hafi klikkað (þá verður komið í ljós hvort skotsilfur júlí hafi skilað sér).

Uuuu... ég notaði netbankann til að skoða yfirlit lengra aftur í tímann, síðasta sjálfvirka innspýtingin var 2. mars síðastliðinn - það er bara röð tilviljana að þakka að ég er ekki löngu búinn að fá synjun á kortið. Núna veit ég líka af hverju sjálfvirknin hefur klikkað, ég verð víst að taka á mig hluta ábyrgðar í því...


< Fyrri færsla:
Vel heppnað grill
Næsta færsla: >
iBíll, Ford og nætur(b)rölt
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry