Huggeymsluleikur og tónleikaupprifjun

Gærdagurinn hófst á tæmingu geymslu sem Hugleikur hefur haft undanfarin ár á Háaleitisbrautinni. Þvílíkt magn af alls kyns dóti og drasli. Ég notaði tækifærið og greip forláta leðurskjalatösku úr "henda" haugnum, með það í huga að nota hana sem skólatösku næsta vetur. Rannsóknir hafa síðar leitt í ljós að hún gleypir 4 möppur (bréfabindi) án þess að blása úr nös - eftir yfirhalningu með skóáburði og smurolíu verður þetta eflaust gæðagripur.

Þetta var mikið verk og mikið rykugt. Í því sem upp á yfirborðið barst (þ.e. úr kjallaranum) kenndi ýmissa grasa. Þar á meðal fannst víkingur sem hafði dagað þarna uppi, eflaust fyrir nokkru síðan þar sem hann var mjög forn í tali. Hann var þó merkilega hress og sagðist hafa lifað á lestri góðra bóka og nartað í gerviblóm þegar hungrið svarf að.

Hugleikskur víkingur

Galvaskur víkingur úr geymslunni

Þarna var einnig drjúgt búningasafn og hengd upp á herðatré innan um léttmyglaða náttkjóla fannst þessi mæðulega kona. Ekki fylgir sögu hvort vopnaburður hennar er tilkominn vegna erja við víkinginn - enda var hún fámál eftir að mesta rykið hafði verið barið af henni.

Mæðuleg kona

Þessi mæðulega kona fannst við uppgröftinn tiltektina

"Henda" haugurinn var einnig stór, þótt þær raddir hefðu heyrst að réttast væri að henda helmingnum af því sem til stæði að hirða - það myndi enginn sakna þess!

Tóta og haugurinn

Tóta "hendum þessu drasli" og hluti haugsins

Þarna í kjallaranum varð ég þess áskynja að gjörvalt áhugaleikarasamfélagið virðist bíða þess með jaðrakanann öndina í hálsinum að ég haldi áfram að skrá Húsabakkaendurminningar mínar. Fyrst ætla ég þó að bæta við stuttorða Metallicafærslu næturinnar.

Stutta útgáfan: Þetta var svakalega gaman og/en hrikalega heitt.

10.001 áhorfandi

Meðfylgjandi mynd nappaði ég af vef Metallica (krefst ókeypis skráningar) og sýnir hún á að giska hálfan salinn. Ég myndi skjóta á að þetta séu um 10.000 manns í banastuði sem þarna sjást.

Ég fór með ofurlækninum Óskari og við vorum mættir á svæðið fljótlega upp úr klukkan 6. Við höfðum haft dálítlar áhyggjur af því hvar við ættum að leggja, en skelltum okkur bara út fyrir vegkantinn á Víkurveginum - örfárra mínútna gang frá höllinni. Ég tróð í mig hádegis/kvöldmatnum sem keyptur hafði verið á leiðinni og við vorum komnir inn á að giska kortér yfir 6.

Brain Police voru kröftugir og þéttir. Að vísu var eins og sándið væri ekki alveg nógu gott og manni fannst þeir örlítið taugaóstyrkir. Þeir héldu sig mest í hnapp kringum trommusettið og virtust ekki vanir stórum sviðum. (Hér er átt við tónleikasvið - ekki ofvaxna kindahausa). Hápunktur þeirra innleggs var þegar söngvarinn reif sig úr bolnum og henti út í sal. Skömmu síðar kom bolurinn fljúgandi aftur upp á svið...

Eftir þeirra framlag var hlé meðan stillt var upp fyrir Mínus og við röltum um og skoðuðum svæðið.

Mínus voru kröftugri og þéttari. Ég hef haft meira gaman af tónlist Brain Police, en Mínusar virtust vera í góðri tónleikaþjálfun og héldu uppi góðri keyrslu. Sándið virtist líka betra hjá þeim. Ég þóttist taka eftir því að ljósamennirnir sem voru uppi í stórum tjakkturni aftarlega í salnum og munduðu gríðarlega spottalampa (e. spotlight) lentu í vandræðum með að lýsa upp fimm mínusa, þar sem lamparnir voru bara 4 (einn á hvern Metallicahaus).

Eftir þeirra framlag var aftur hlé. Nú kom í ljós fyrsta skipulagsklikkið, því þegar þeir sem vissu að nú væri tæpur klukkutími í að aðalbandið stigi á svið ætluðu að fara framm í almenning til að pissa og/eða éta pissusneiðar varð úr alsherjarþvaga og troðningur. Þvert yfir miðjan salinn var öryggisgirðing sem aðskildi aðal og pöpul og á hvorum væng var þröngt hlið þar sem teknar voru blóðprufur til að tryggja að einungis þeir með blátt blóð í æðum kæmust í fremri bás. Gegnum þau hlið þurfti að fara bæði inn og út og þarna mættust nokkur hundruð manns úr sitt hvorri átt að reyna að komast gegnum þröngt hlið með fyrirsjáanlegum afleiðingum og stíflum.

Ég skildi ekkert í því hvers vegna ekki var bara opnað út úr húsinu á móts við girðinguna og pissuþurfandi hleypt þar út. Þegar við sjéntilmennin höfðum barið okkur leið gegnum þvögu smástelpna og sterabolta og komnir út á kamrasvæðið skildi ég ástæðuna. Girðingin sem reist hafði verið utan um hlandkofana náði ekki nægilega langt. Þarna hefði verið gáfulegra að útbúa smá afleggjara á girðinguna og brúa þessa 15m eða svo sem upp á vantaði.

Það er líka skrítið að ekki skuli hafa verið sett upp lítið svið til hliðar þar sem hægt hefði verið að hafa uppistand, DJ (rokkaðann) eða eitthvað annað til að hafa ofan af fyrir fólki. Þess í stað þvældust menn stefnulaust um í þrjú kortér til klukkutíma milli hljómsveita.

Eftir að hafa kastað þvagi og innbyrt fersklyfti ákváðum við að koma okkur aftur á fyrri slóðir áður en hetjurnar birtust. Það að koma inn í húsið aftur var eins og að ganga á vegg, enda töluvert farið að fjölga og farið að hitna í húsinu.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag var heitt. Helvíti heitt. Helvíti svakalega heitt.

(Fyrirsögn dagsins er á mbl.is: "Finna fyrir mikilli hlýju í Evrópu" - jamm, og hvergi eins og á sviðinu í Egilshöll!)

Það er töluverður ylur sem kemur af 18 þúsund skrokkum, jafnvel áður en þeir byrja að hoppa, öskra og djöflast. Loftræstikerfið var sett í gang í stutta stund en síðan dregið niður í því aftur. Ég var við því búinn að svitna í hoppi og rokkfíling, en hafði ekki gert ráð fyrir því að það myndi leka af manni svitinn bara við það eitt að standa kyrr. Rétt áður en kapparnir stigu á stokk tróð ég mér í sjoppuna til að kaupa gos og mér fannst áberandi hvað margir voru mæðulegir og virtust flestir vera að hugsa það sama: "Hvernig verður þetta þegar lætin byrja?"

Ég held að björgunarsveitarmaðurinn sem var í gæslu upp við sviðið í fjallgönguklossum hafi örlítið svitnað þetta kvöld.

Ég varð ekki var við neina sem örmögnuðust, en fréttirnar tala um allt að hundrað manns sem hafi þurft aðstoð og það kemur mér ekkert á óvart. Jón Heiðar sagðist hafa séð a.m.k. tvo leka í gólfið, annað stelpu sem lá áður en Metallica komst einu sinni á svið.

Það er ekki mikið rokk að byrja á réttum tíma, en þeir mega eiga að það voru þó ekki komnar nema 15-20 mín fram yfir þegar ljósin slokknuðu og allt varð vitlaust. Gæsahúð og allur pakkinn.

Metallica voru kröftugastir og þéttastir - og laangflottastir. Þvílíkur kraftur í köllunum!

Eins og við Óskar göntuðumst með þá eru þetta efnilegir strákar og geta eflaust náð langt...

Hitinn vandist smám saman og maður passaði að fara reglulega og kaupa meira gos. Við vorum frekar aftarlega á svæði A og þar var ekki mikill troðningur, en það hefði ekki mátt bæta mjög mörgum við áður en færi að þrengja að. Hopp og djöfulgangur var hafður í lágmarki af skynsemisástæðum en ég var þeim mun duglegri við klöpp og handahreyfingar auk þess að sveifla skegginu sem ég hafði safnað undanfarna viku í tilefni af tónleikunum. Ég held að mér sé líka óhætt að fullyrða að vísifingur og litlifingur hafa aldrei verið svona lengi aðskildir frá öðrum fingrum beggja handa.

Ég þekkti lögin misvel - aðallega þó eldra stöffið og best það sem er á svarta albúminu, en í þeim lögum sem maður þekkti gaulaði maður með eftir bestu getu. Uppklappslögin voru svo gullnir standardar sem allir þekktu og gríðarleg stemmning. Þegar þar var komið sögu var löggan búin að láta opna út allar dyrnar meðfram húshliðinni og maður sá þokubólstrana sem streymdu inn þegar kalt loft að utan blandaðist heitu og röku loptinu innandyra. Þeir voru ekkert á því að hætta og þótt þeir tækju ekki fleiri aukalög en greinilega voru á prógramminnu tóku þeir langan tíma í að stjákla um sviðið og klappa fyrir áhorfendum.

Við vorum ekkert að flýta okkur út, en þegar maður var kominn upp í tröppurnar og leit um öxl var ekki laust við að maður segði "Vá!" - það voru enn mörg þúsund manns inni og ég get rétt ímyndað mér að mannhafið hafi verið tilkomumikið séð ofan af sviði.

Fyrir utan hittum við svo litlu systur og Önnu Friðriku. Þær neituðu að trúa fullyrðingu minni um að það hefði nú bara verið svalt í B-svæðinu hjá þeim (ég skrapp þangað í sjoppu þegar nokkurra metra þvögustappa hafði myndast um sjoppuna okkar megin hliðs). Þar var mun gisnara og virtist það duga til að hitinn væri minni.

Heimferðin gekk svo prýðilega. Reyndar sneri bíllinn öfugt miðað við einstefnuna sem tekin var upp á Víkurveginum, en með því að þvera báðar akreinar tókst að snúa honum án þess að þurfa að bakka út í einhverjar torfærur utan vegar. Umferðarskipulag virtist til fyrirmyndar og þótt umferðin á Víkurveginum hafi ekki farið hratt yfir fór hún þó.

Að frátöldum vandamálum með loftræstinguna var öll framkvæmd með sóma. Það bólaði hvergi á slagsmálum eða þess háttar veseni. Þar spilaði eflaust inn í að ekkert áfengi var selt á staðnum og það áfengi sem menn höfðu innbyrt áður en inn var komið var örugglega runnið af mönnum (eða gufað upp) þegar Metallica steig á svið.

Hljómsveitin stóð sig óaðfinnanlega og þetta var brilljant skemmtun.

Í morgun gerði ég atlögu að nýju snús-heimsmeti og mætti um klukkutíma of seint í vinnuna. Það kom þó ekki að sök þar sem frekar rólegt er vegna sumarleyfa og ég vann lengur frameftir í staðinn. Ég kíkti í hádeginu (hóst) á áðurnefndan vef Metallica (krefst enn ókeypis skráningar) og komst þar að ýmsu smálegu sem mér fannst fróðlegt:

  • Lagalistar eru töluvert breytilegir milli tónleika, þótt uppklappslögin virðist að mestu fastsett.
  • Ég er mjög feginn að það voru engar eldvörpur á sviðinu eins og á síðustu tónleikunum fyrir Íslandsförina.
  • Myndasyrpan frá Egilshöll sýnir hljómsveitina við lítið trommusett með græjur um öxl og miðað við klukkuna er myndin tekin rétt áður en þeir stigu á svið. Mig grunar að þarna hiti þeir upp og ákveði endanlega lagalistann.
  • Allir tónleikar í túrnum verða gerðir aðgengilegir sem "löglegir bútleggar", teknir upp beint úr mixerborðinu. Tónleikar gærdagsins ættu því fljótlega að vera til sölu á MP3 formi. Það er kitlandi tilhugsun að eiga disk með live tónleikum Metallica sem maður var sjálfur viðstaddur!
  • Þeim virðist líka hafa þótt heitt á tónleikunum í gær, en voru ánægðir með að allir skyldu hafa verið í góðu skapi og engin leiðindi verið.

Svo er bara að bíða eftir að þeir komi næst!!!

(Annað hvort verð ég að læra að vélrita hraðar eða hætta að vera svona helv. margmáll - annars kemst ég aldrei yfir Húsabakkaskráninguna).


< Fyrri færsla:
5 km: 29 mín
Næsta færsla: >
MetalliBíó
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry