Placebo í gær

Placebo í Höllinni í gær. Skemmtilegir tónleikar og það kom mér eiginlega á óvart hvað ég þekkti þó mörg lög miðað við að ég á engar plötur með þeim. Salurinn var reyndar frekar þungur en það náðist upp fín stemmning á köflum og þeir lyfleysingjar voru heilt yfir hörkugóðir.

Við vorum í stúkunni og sáum því vel yfir. Þegar Maus byrjaði að spila leist mér varla á blikuna því salurinn var varla hálfur (og ég vissi að það var ekki orðið uppselt fyrr um daginn). Maus stóð sig ágætlega, en mér fannst átakanlegt hvað ljósasjóið var slakt og virtist eins og einhver væri að fikta handahófskennt í stjórnborðinu.

Þegar Placebo byrjaði var kominn áættanlegur fjöldi í húsið og menn tóku vel við sér. Reyndar var eitthvað tæknibögg að plaga þá í upphafi, einhverjar bendingar og rótari (kvenkyns!) sem var að reyna að bjarga málum svo lítið bæri á (en varð fyrir vikið miklu meira áberandi). Ég gat reyndar ekki heyrt að neitt væri að, en það truflaði mann að horfa á þetta vesen í þeim sem stóð hátt í hálftíma (en bandið spilaði á fullu á meðan).

Það var ekkert verið að bruðla með eitthvað "Hello Reykjavik", þeir bara byrjuðu á fyrsta lagi og voru örugglega búnir að keyra í gegnum hátt í tíu lög þegar söngvarinn kastaði kveðju á hópinn. Það brast á með almennum fögnuði og hann svaraði "Yes, it does speak!"

Það er auðvitað ekki sanngjarnt að bera stemmninguna saman við Metallica eða Deep Purple (sem voru síðustu tónleikar sem ég sá í Höllinni), enda var hlutfall die-hard aðdáenda eflaust mun lægra hjá Placebo en hinum. Hins vegar fannst mér merkilegt hvað salurinn var lítið í stemmningu, það var klappað rösklega eftir hvert lag, en t.d. þegar hljómsveitin reyndi að fá menn til að klappa með lögum náði það sjaldnast lengra en 4-5 metra frá sviðinu, hvað þá upp í stúku. En það tóku allir þátt í uppklappinu og virtust vera að fíla tónlistina - kannski voru menn bara enn að jafna sig eftir Metallica?

Ljósasjóið var áberandi betra hjá þeim heldur en Maus og á köflum dáðist ég að því hvað tókst að gera margt með þessum 25-30 ljósaróbótum sem voru á sviðinu.

Rock on!

Það atvikaðist þannig að við vorum allir þrír bræðurnir á tónleikunum, á Metallica vorum við líka þrjú systkin - en þá var Margrét í stað Ella. Rokkfjölskyldan ógurlega...


< Fyrri færsla:
Húsabakkaminningar - annar þáttur
Næsta færsla: >
Friðhelgi rofin
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry