Friðhelgi rofin

Í gær fékk ég fyrsta spammið á netfangið thorarinn hjá thorarinn.com (a.m.k. svo ég muni til). Ég hef passað mig á því að láta það netfang hvergi birtast hér á vefnum á smellanlegu formi, og að frátöldum einstaka pósti sem greinilega hefur komið frá einhverjum með vírussmit hefur mér tekist að halda þessu netfangi "hreinu".

Þessi tilraun segir mér að mailto: tenglarnir verði því miður að leggjast af (þ.e. "virk" netföng sem hægt er að smella á til að senda póst). Ég bý svo vel hjá núverandi hýsingaraðila að ég get búið til eins mörg netföng og mér sýnist (ég á 995 leyfi eftir ónotuð) og hef búið til einnota netföng á borð við yemen@, myndatexti@ og vasa@ þegar ég hef þurft á þeim að halda.

Undantekningarlítið fer ruslpóstur að berast á þessi netföng 2-10 dögum eftir að þau birtast á vefnum og þá hef ég bara kippt þeim úr umferð, enda þau þá búin að þjóna tilgangi sínum.

Ég hef lengi ætlað að skrifa grein/pistil um það hvernig hægt er að fara að því að eiga tölvupóstinn sinn í friði, hins vegar hef ég ekki komið mér að því, en fyrst ég er byrjaður á þessu tuði eru hér nokkrar ábendingar (af hugartoppi mínum):

  • Eigið eitt "sparinetfang" sem þið reynið að halda hreinu. Forðist að það sé sýnilegt á opnum vef (a.m.k. ekki smellanlegt).
  • Ekki hafa sparinetfangið vinnunetfang, það veldur óþarfa veseni þegar skipt er um vinnustað, auk þess sem maður vill hafa skýr skil mili prívatpósts og vinnupósts.
  • Komið upp einu (eða fleiri) einnota netföngum sem þið notið þegar krafist er netfanga við skráningar á vefnum, síðan rennir maður yfir þetta ca. vikulega og hendir öllu sem ekki er áhugavert.
  • Ekki nota "Click here to send this page to your friend" möguleika á vefsíðum, þið eruð enga stund að afrita vefslóðina og senda sjálf(ur) tölvupóst. Þetta er oft gert til að safna netföngum í ruslsendingar (a.m.k. veist þú ekkert hvað gert verður við netföng vina þinna).
  • Ef þið hafið gefið upp netfangið til að komast inn á "ókeypis" klám vorkenni ég ykkur ekki neitt. Það er þitt sjálfsskaparvíti.

Ég spái því að innan skamms verði flestöll netföng sem birt eru t.d. á vefjum fyrirtækja dauður texti (eða myndir) þannig að ekki sé hægt að smella á þau. Enda munar mann ekkert um að skrifa netfangið hjá sér og slá það handvirkt inn í póstforrit. (Á sama hátt og maður notar t.d. uppgefin heimilisföng eða símanúmer)

Í gærkvöldi lenti ég svo í símaspammi KB banka (míns viðskiptabanka!) þar sem einhver stamandi smástelpa hringdi heim til mín og vildi bjóða mér ráðgjöf. Ekki traustvekjandi. Ef ég væri ekki nýbúinn að fá voðafínt skóburstunarsett frá bankanum ásamt bréfi um það hvað ég sé rosalega merkilegur kúnni hefði ég eflaust farið í fýlu út í KBb. Þess í stað lét ég nægja að láta þetta fara hárfínt í taugarnar á mér.

PS. Mæli með Red Hot Cilli Peppers safndisknum sem fylgir með nýjasta hefti Mojo (þ.e. lög annarra flytjenda sem eru í uppáhaldi hjá hljómsveitinni og/eða hafa haft áhrif á þá). Glimrandi blanda af faunki, paunki og djassrokki.

PPS. Kannski var þetta ekki spamm... Kannski ég hafi raunverulega unnið eina milljón evra í happdrætti... Ég þarf bara að senda þeim tölvupóst... Þá verð ég ríkur... Jibbí!


< Fyrri færsla:
Placebo í gær
Næsta færsla: >
Helgi að Hreðavatni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry