Lýst eftir gestum á leið í frí

Ómissandi hluti af skipulagningunni áður en maður flytur til útlanda er auðvitað kveðjupartíið/in. Hið árlega frændsystkinagrill verður að kvöldi Reykjavíkurmaraþondags (við upphaf menningarnætur) og mjög leynilegar og lítt mótaðar hugmyndir eru uppi um partí helgina þar á undan. Ég er hins vegar að spá í að halda smá partí um verslunarmannahelgina, en veit ekki hvort nokkur verður í bænum.

Ég ákvað því að grípa til tölvutækninnar og skellti í gærkvöldi nýrri auglýsingu á forsíðuna hjá mér og lýsi eftir gestum í partí þá helgi. Áhugasamir geta kynnt sér málið.

Ég viðurkenni að auglýsingin er klisjuleg (drop-shadow og allur pakkinn), en klisjur selja! Auk þess er þetta líklega mesta stuðmynd sem ég á úr partíi á mínum vegum (a.m.k. af þeim myndum sem ég fann í tölvunni um miðnættið í gær).

Það er helst í fréttum að er ég á leið í ca. tveggja vikna frí og fyrsti frídagurinn er á morgun. Ég held að bæði ég og vinnan mín höfum gott af smá aðskilnaði. Undanfarna daga hefur mér lítt orðið úr verki (og ég held það sé ekki bara af því að ég sjái fyrir endann á starfi mínu hér), smá frí er eflaust passlegt áður en ég kem aftur í kröftugan lokasprett. Sumartíminn er afskaplega rólegur hér á skrifstofunni og þá ætti maður að nota tækifærið og sigrast á gömlum syndum og verkefnum sem setið hafa á hakanum fræga. Hins vegar er oft ástæða fyrir því að maður hefur frestað ákveðnum verkefnum...

Eníhú, höfundahópsfundur Hugleiks í kvöld, spurning hvort ég reyni að koma einþáttungi sem ég hef verið að böggla saman á fjalirnar næsta vetur. Verst að ég yrði þá líklega ekki á landinu til að sjá afraksturinn (nema ég notaði slíkt sem afsökun til að skreppa heim).

Annars hefur fæðing þessa einþáttungs verið mjög merkileg. Hann varð fyrst til sem samtal tveggja á bar (fyrir nokkrum árum) en varð í vor að samtali þriggja persóna í lyftu. Fyrsta lyftuútgáfan hafði í raun hvorki upphaf né almennilegan endi, endirinn fæddist hins vegar fyrir nokkrum vikum og nýlega fékk ég hugmynd að því hvernig upphafið gæti orðið spennandi þar sem ég barðist um á hæl og hnakka við að komast undan sænginni minni. Ég á reyndar eftir að setja þá byrjun niður á blað - kíki kannski á það í fríinu.

Hakaverkefnin bíða...


< Fyrri færsla:
5 km: 29:30 mín
Næsta færsla: >
Sumarfrí eru góð frí
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry