Sumarfrí eru góð frí

Fyrsti morgun í sumarfríi er að baki. Í gær fékk ég þá flugu í höfuðið að byrja daginn á því að dusta rykið af golfbareflunum og lemja eins og tvær fötur af golfknöttum út í buskann á Seltjarnarnesinu.

Ég svaf reyndar ívið lengur en ég átti von á - enda dreymdi mig mikið og þurfti tíma til að klára það havarí. En ég spígsporaði út úr húsi um hálf-tólfleytið og þegar ég var kominn út á hlað mundi ég eftir því að það væri líklega betra að taka bareflin með. Þannig að ég fór aftur upp í íbúð að sækja geymslulyklana og spændi svo af stað í reykjarmekki og gúmmítægjuhríð.

Kríuhelvítin voru aðgangshörð að venju, ég reyndi að bregða dræver um öxl til að forðast höfuðkúpubrot en þá gerðu kvikindin sér lítið fyrir og kúkuðu á öxlina á mér. Mér tókst við illan leik að komast inn í skála til að kaupa kúlufötu og sníkja bréf til að verka af mér skítinn.

Tvær fötur voru svo barðar af dugnaði og sannast sagna heppnaðist merkilega hátt hlutfall högganna. Nú er ég að melta hádegiskæfubrauðið og skipuleggja daginn...

Nýjar myndir af Vilborgu voru settar inn í gærkvöldi.


< Fyrri færsla:
Lýst eftir gestum á leið í frí
Næsta færsla: >
5 km: 29 mín
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry