Íbúð til leigu

Uppfært: Íbúðin er ekki lengur til leigu.

Hér kemur ítarlegri lýsing á kostum og kynjum íbúðarinnar minnar sem ég er að leita að leigjanda að. Stutta útgáfan: 3ja herbergja á besta stað í Vesturbænum laus frá lokum ágúst.

Íbúðin sjálf er 65m2 auk 5m2 geymslu sem ég mun eflaust þurfa að nota að stórum hluta fyrir mína búslóð. Helsta stolt hennar eru um 20m2 svalir sem snúa í suðvestur, með harðviðarpöllum og útsýni yfir gervigrasvöllinn og æfingavöllinn hjá KR (með góðum vilja má sjá glytta í annað markið á aðalvellinum). Fyrir þá sem ekki eru sérstakir aðdáendur KR má benda á það að svalirnar snúa einstaklega vel við sól.

Gengið er inn í litla forstofu sem opnast inn í stofuna. Eldhúsið er einnig opið inn í stofuna, það er með ágætri innréttingu, eldavél og ísskáp sem ég myndi láta fylgja með.

Svefnherbergin eru tvö, bæði rúmgóð, annað heldur stærra og það er með stórum og rúmgóðum fataskápum. Baðherbergið er nýlega tekið í gegn, flísalagt með baðkari og sturtu (auðvitað að ógleymdu klósetti og baðvaski).

Parket á stofu, eldhúsi, forstofu og gangi. Dúkur á svefnherbergjum og flísar á baði. Íbúðin var öll máluð fyrir tveimur árum í ljósum litum. Einfaldar gardínur geta fylgt.

Þvottahús er á hæðinni þar sem hver íbúð er með sína þvottavél og þurrkari er sameiginlegur. Ágætar snúrur. Ég myndi láta aðgang að minni þvottavél fylgja, góður gripur (AEG, með íslensku stjórnborði!)

Endaíbúð með góðum nágrönnum.

Íbúðin gæti leigst með húsgögnum (borðstofuborði og stólum, bókahillum o.þ.h.) ef vilji er til. Slíkt myndi líka spara pláss í geymslunni og opna möguleika á að nýta hana að hluta.

Staðsetningin er alveg framúrskarandi. 15-20 mínútna gangur í miðbæinn, örstutt að fara í Melabúðina eða Nóatún, tvær vídeóleigur í nágrenninu, veitingastaðir og allur pakkinn.

Réttir leigjendur fá dýrðina á kostakjörum, líklega kringum 70 þúsund með hússjóði og hita (ég á eftir að yfirfara útreikningana). Að sjálfsögðu verður allt uppi á borðinu og því hægt að sækja um húsaleigubætur og/eða greiðslur frá LÍN.

Íbúðin losnar síðustu vikuna í ágúst. Netfangið mitt er hér til hliðar.

Útvarp Reykjavík, lestri auglýsinga er lokið.


< Fyrri færsla:
Myndir frá grillveislu komnar á vefinn
Næsta færsla: >
Ekki partý um verslunarmannahelgina
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry