Nýtt leikfang

Fyrir þremur árum keypti ég mér fyrstu "nýju" PC vélina mína (forverar hennar höfðu ýmist verið keyptir notaðir eða púslað saman úr nýju og gömlu - nýjan Makka hafði ég svo keypt á háskólaárunum). Hún var keypt sem toppgræja gegnum störf mín hjá EJS samsteypunni og ég man hvað það gladdi mitt litla hjarta þegar strákurinn sem afhenti mér vélina sagði eftir að hafa litið á nótuna "þetta er ekki vél, þetta er villidýr!"

Hún fékk nafnið Surtur í höfuðið á jötninum í Völuspá:

Surtur fer sunnan með sviga lævi.
Skín af sverði sól valtíva.
Grjótbjörg gnata en gífur rata.
Troða halir helveg en himinn klofnar.

Surtur hefur reynst mér vel og staðið sig með prýði. Fyrir utan eitt tilvik þegar harði diskurinn gaf skyndilega upp öndina, en hún var enn í ábyrgð og þeim hjá EJS tókst að flytja öll gögn af harða disknum yfir á þann nýja svo enginn skaði hlaust af.

Surtur er hins vegar fyrirferðarmikill (sérstaklega þegar við bætist 17" Trinitron skjárinn minn sem vegur á við hálfan fullvaxinn karlmann) og því lét ég verða af því að kaupa mér staðgengil hans sem er örlítið smábeinóttari til að taka með mér til útlandsins.

Nýja tölvan er með örgjörva sem er á að giska tvöfalt öflugri en í Surti, harði diskurinn er tvöfalt stærri, innra minnið tvöfalt meira og það sem mestu munar; nýja tölvan er fartölva.

Og verðið? Með því að beita samböndum fékk ég starfsmannakjör á nýja gripnum líka og hann kostar... 60 þúsund krónum minna en Surtur gerði fyrir þremur árum (og var Surtur þó ekki keyptur með skjá). Tækniframfarir eru góðar framfarir!

Nýja græjan er líka svört og því er spurning hvort hún fái nafnið Tinna. (Surtur JR kemur líka til greina.) Mér finnst samt að hún eigi að fá kvenmannsnafn, veit ekki hvort það er eitthvað um svört kvennöfn í Völuspá?

(Nei, það er ekki af eintómum nördaskap sem ég er að spá í nafn á vélina. Hún þarf að fá eitthvað nafn fyrir netkerfin.)

Hvort skyldi nú meiri tími fara um helgina í pökkun og tiltekt eða í að leika sér við Tinnu litlu?

Ég er hræddur um að ég viti svarið við því...

Uppfært: Syrtla er auðvitað nafnið!


< Fyrri færsla:
Ekki partý um verslunarmannahelgina
Næsta færsla: >
Helgarpóstur hinna verslandi manna
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry