ágúst 2004 - færslur
02. ágúst 2004 | 0 aths.
Í þessum rituðum orðum er upp runninn síðasti dagur verslunarmannahelgarinnar 2004, þegar íslenska þjóðin flykktist (enn einu sinni) út á þjóðvegina með tjald og bús í leit að lífshamingjunni. Sjálfur hélt ég kyrru fyrir í vesturbænum og tók þátt í minni eigin sjálfsblekkingu; goðsögninni um helgi dugnaðarins.
02. ágúst 2004 | 0 aths.
Húsnæðismál í mörk dana eru enn óleyst. Hin miðlæga úthlutunarnefnd stúdentabýla hafði gjört lýðum það heyrinkunnugt að upp skyldi tekinn akútlisti til að bjarga stúdlingum utan Kaupmannahafnar drottningar og að ekki yrði úthlutað eftir venjubundnum leiðum og biðlistum fyrr en akútlistinn yrði tæmdur eða tíundi mánuður ársins liðinn, hvort sem fyrr yrði. Á þennan nýja örvinglunarlista yrði raðað í tímaröð umsækjenda með líkum hætti og gert var hjá Lukku Láka í bókmenntaafrekinu Allt í sóma í Oklahóma, það er með kapphlaupi. Ræsing skyldi fara fram á vef úthlutunarnefndar að morgni frídags verslunarmanna (hvurs fríhelgi hin miðlæga úthlutunarnefnd virðist alls ómeðvituð um). Líkt og í Oklahóma forðum gekk á ýmsu við ræsingu.
02. ágúst 2004 | 0 aths.
Síðdegis í dag fékk ég tölvupóst þess efnis að ég uppfylli ekki skilyrðin fyrir því að komast á akútlista miðlæga úthlutunarbatterísins af því að ég sé á leið í framhaldsnám en akútlistinn sé ætlaður þeim sem eru að hefja grunnnám. Það er því ljóst að ég fæ ekkert húsnæði eftir þeirri leið fyrr en í fyrsta lagi undir lok ársins.
05. ágúst 2004 | 0 aths.
Í gær fór ég til tannlæknis til að láta tékka á mér fyrir utanlandsför. Það hefur verið regla undanfarin ár að þegar ég fer til tannlæknis með vísbendingar um að eitthvað sé að finnst ekkert, en ef ég held að allt sé í lagi er stóri höggborinn dreginn fram.
09. ágúst 2004 | 0 aths.
Þá er helgin að baki og sannast sagna fór lítið fyrir undirbúningi fyrir utanförina sem nálgast óðum. Í því tilliti er næstum eins og helgin hafi hreinlega gufað upp.
09. ágúst 2004 | 0 aths.
Ég ákvað að láta svefntruflanir undanfarinna daga ýta mér aftur út í hlaupaskapinn, held ég hafi gott af smá líkamlegri áreynslu. Ég er ekki sannfærður hvort ég held því til streitu að hlaupa 10 kílómetrana í Reykjavíkurmaraþoninu, en þessi 5 km hringur minn í dag gekk a.m.k. ágætlega.
11. ágúst 2004 | 0 aths.
Þetta er reyndar ekki rétta veðrið til að böðlast í tiltekt og pökkun, en ég var farinn að hafa áhyggjur af því hvað mér ynnist hægt að pakka mér niður og var jafnvel að gæla við að fara heim eftir hádegið til þess að taka skorpu. Hins vegar komst ég vel á skrið í vinnunni og lét því duga að yfirgefa svæðið rétt fyrir lok dags.
11. ágúst 2004 | 0 aths.
Brottför dróst nokkuð vegna óvænts dugnaðar við niðurpökkun, en ég brölti af stað á stuttbuxunum (fyrsta sinn í sumar) um hálf-níuleytið. Hlaupið í fyrradag sat aðeins í vöðvunum (hef tekið fulllangt hlé þar á undan) þannig að tíminn kom mér skemmtilega á óvart. Veðrið var alveg frábært, örlítil gola, alveg hæfilegur hiti og léttklætt og brosmilt fólk hvert sem augað eygði.
13. ágúst 2004 | 0 aths.
Nú er síðasti sjéns að taka til á skrifborðinu og í skápunum. Nauðsynlegt að reyna að koma skikki á það sem ég hef verið að gera svo minn eftirmaður verði fljótur að koma sér í gang. En hvað geri ég...
15. ágúst 2004 | 0 aths.
Skal nú samantekið og birt yfirlit yfir nýliðna daga, á hvurja ýmislegt hefur drifið. Störfum mínum fyrir Reykjavík er formlega lokið, leikþáttur eftir mig kominn í deiglu Hugleiks og gæti slysast á svið, partýstand og fleira.
16. ágúst 2004 | 0 aths.
Rólegheitalull á sjálfstýringunni fyrri hluta hringsins meðan ég velti vöngum yfir hinu og þessu, aðallega Köben. Tók mig svo á með ágætu tempói síðasta þriðjunginn. Þrekið prýðilegt, þótt kálfarnir hafi aðeins kvartað yfir endasprettinum.
16. ágúst 2004 | 0 aths.
Þá er mánudagur að líða undir lok og sex dagar í brottför. Ég held enn í vonina um að mér takist að pakka mér niður fyrir þann tíma (a.m.k. þar til annað kemur í ljós).
18. ágúst 2004 | 0 aths.
Og þar af ekki nema tveir virkir dagar! Enn er þó möguleiki að þetta takist með samstilltu átaki mínu og sjálfs míns. Efast hins vegar stórlega um að ég hafi tíma til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu - því miður!
21. ágúst 2004 | 0 aths.
Púff! Mikið span og óðagot undanfarna daga. Neyddist til að sleppa maraþoninu (snökt) og er núna að leggja í klórgufueitrun við að þrífa baðkarið. Mun klára þrif á morgun og skila af mér íbúðinni - út á mánudagsmorgun.
23. ágúst 2004 | 0 aths.
Með drjúgum endaspretti tókst að klára (næstum) allt í gær. Um kvöldmatarleytið var ég gersamlega punkteraður, en smá lúr eftir matinn bjargaði mér alveg og mér tókst að sofa einhverja 4-5 tíma áður en ég vaknaði í flug.
24. ágúst 2004 | 0 aths.
Jæja, þá er maður kominn í skólann. Í dag er kynningardagur þar sem farið er yfir netkerfið fyrir okkur grænjaxlana, okkur sýnt húsið og farið yfir það helsta. Nú er ég búinn að kyngja samloku dagsins og sestur við í tölvuverinu þar sem við eigum að gera nokkrar léttar æfingar, prófa að breyta lykilorðinu okkar og vonandi text mér að koma mér upp stúdentakorti áður en dagurinn er úti.
25. ágúst 2004 | 0 aths.
Í gær var kynningardagur á upplýsingakerfi skólans, um kvöldið brann hluti Kaupmannahafnar og í dag stúderaði ég kirkjugarða ásamt því að prufukeyra Metróinn í eins konar fýluferð yfir til Amager.
28. ágúst 2004 | 0 aths.
Þá er fyrsta danska helgin gengin í garð og eflaust rétt að líta aðeins um öxl yfir það sem á dagana hefur dregið undanfarið. Í stuttu máli hefur þetta gengið vonum framar og ég er mjög ánægður með móttökurnar í skólanum.
30. ágúst 2004 | 0 aths.
Í gær (sunnudag) fór ég yfir á Amager til að skoða herbergi sem ég hafði séð auglýst á netinu og var búinn að setja mig í samband við þann sem auglýsti. Í sem stystu máli var ég svo að flytja mitt hafurtask þangað í morgun.