Vefkerfi kúkar á sig

Húsnæðismál í mörk dana eru enn óleyst. Hin miðlæga úthlutunarnefnd stúdentabýla hafði gjört lýðum það heyrinkunnugt að upp skyldi tekinn akútlisti til að bjarga stúdlingum utan Kaupmannahafnar drottningar og að ekki yrði úthlutað eftir venjubundnum leiðum og biðlistum fyrr en akútlistinn yrði tæmdur eða tíundi mánuður ársins liðinn, hvort sem fyrr yrði. Á þennan nýja örvinglunarlista yrði raðað í tímaröð umsækjenda með líkum hætti og gert var hjá Lukku Láka í bókmenntaafrekinu Allt í sóma í Oklahóma, það er með kapphlaupi. Ræsing skyldi fara fram á vef úthlutunarnefndar að morgni frídags verslunarmanna (hvurs fríhelgi hin miðlæga úthlutunarnefnd virðist alls ómeðvituð um). Líkt og í Oklahóma forðum gekk á ýmsu við ræsingu.

Ég reif mig á fætur rétt fyrir klukkan 8, ánetjaðist og krosslagði fingur.

Það fór eins og mig grunaði, um það leiti sem ég reyndi að skrá mig inn í kerfið rétt fyrir uppgefna ræsingu í sýndarkapphlaupinu brást það með eindæmum seint og illa við og má í raun segja að það hafi lyppast niður með litlum glæsibrag.

Þekkjandi örlítið til vefforritunar og vefvirkni, var ég fljótur að sjá að kerfið var ekki að ráða við álagið þegar allir reyndu að skrá sig inn á sama tíma. Þá upphefst skemmtileg catch 22 staða; kerfið ræður ekki við að afgreiða allar beiðnir sem því berast, en til þess að ég nái mínum vilja fram þarf ég að halda áfram að heimta afgreiðslu í þeirri von að hitta vel á vefþjóninn, vitandi það að besta leiðin til að koma vefþjóninum aftur á réttan kjöl væri ef allir (hinir) hættu að angra hann.

Eftir þrjú kortér af bið og einstaka fjörkippum vefkerfisins gerðu baunarnir lox það eina rétta í stöðunni. Upp kom melding um að vefþjónninn væri upptekinn, ef ég ætti önnur erindi en að skrá mig á akútlistann ætti ég að gjöra svo vel að reyna aftur síðar, en tekið yrði á móti skráningum á akútlistann í tölvupósti. Ég (og eflaust nokkur hundruð líkt ástandandi sálir) rauk því til og puðraði umbeðnum upplýsingum í póst og sendi af stað. Svo er bara að bíða og sjá hvað af þessu hlýst.

Svo er bara að vona að allir hinir hafi lent í sama brasi og ég, þannig að hin raunverulega ræsing kapphlaupsins hafi verið 8:45 að frónskum tíma - því þá ætti ég að standa þokkalega að vígi.

Ég get hins vegar alveg ímyndað mér ástandið á tölvudeild miðlægu skrifstofunnar í morgun. Þeir hljóta að hafa haft grun um að tölvukerfið myndi ekki valda álaginu og eflaust setið skítstressaðir við tölvurnar þegar lætin voru að byrja. Kerfið hrundi síðan með glæsibrag (og svaraði ekki einu sinni pingi (fyrir þá lesendur sem það skilja)) og þá upphófst eflaust mikil reikistefna og handapat. Mér finnst allar vísbendingar benda til þess að leiðin sem þeir fóru til að redda sér hafi ekki verið undirbúin fyrir fram; skjalið hét presure.asp (ekki pressure) og í því voru nokkrar fljótfærnivillur, bæði í textanum og forrituninni. Ég sé fyrir mér veslings forritarana kófsveitta að reyna að bjarga því sem bjargað verði, verkefnisstjórar vomandi yfir þeim, sjálfir með jakkafataklæddar silkihúfur úthlutunarnefndarinnar brjálaða af stressi í símanum.

Been there, done that...


< Fyrri færsla:
Helgarpóstur hinna verslandi manna
Næsta færsla: >
Babb í bátinn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry