Holulaust grill

Í gær fór ég til tannlæknis til að láta tékka á mér fyrir utanlandsför. Það hefur verið regla undanfarin ár að þegar ég fer til tannlæknis með vísbendingar um að eitthvað sé að finnst ekkert, en ef ég held að allt sé í lagi er stóri höggborinn dreginn fram.

Undanfarið hálft ár eða svo hef ég verið að fá tannkul sem ég hef ekki fundið fyrir áður, og átti allt eins von á að það væri vísbending um að eitthvað væri að skemmast.

Reglan stendur hins vegar enn: Grunur, þ.a.l. engar holur.

Eftir að hafa snúið aftur til daglegrar tilveru hringdi í mig verðandi hugsanlegur leigjandi til að ræða skilmála leigunnar. Við handsöluðum málið gegnum síma og nú þarf ég að græja leigusamning og reikna endanlega kostnaðartölu. Við ætlum síðan að skrifa undir öðru hvoru megin við helgina.

Um kvöldið komu svo Sigmar og Margrét í grill, enda rigningarsuddi og þörf á að lyfta lundinni eilítið. (Til að fyrirbyggja misskilning grillaði ég ekki lundir heldur lærissneiðar). Yfirlýstur tilgangur heimsóknarinnar var einnig að Margrét teldi upp hvað hún vildi "passa" af búslóðinni. Niðurstaðan sú að hún tekur heimabíókerfið, þrjá lampa, stærstan hluta diskasafnsins, gasgrillið og sitthvað smálegt.

Nýi leigjandinn ætlar að fá eitthvað af húsgögnunum með íbúðinni, Jón Heiðar fær sófann, það er kominn tími á rúmið og ég geri ráð fyrir að það fari í nytjagám frekar en í geymsluna. Surtur (gamla tölvan mín) og bróðir hans Sony Trinitron skjárinn minn fá líklega að hvíla sig í geymslunni. Ég tími ekki að reyna að selja þá og vonast til að geta nýtt þá eitthvað þegar ég kem aftur.

Og svo er partí um helgina!


< Fyrri færsla:
Babb í bátinn
Næsta færsla: >
Helgin sem hvarf
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry